Ávarp formanns
Það er áhugavert að starfa í markaðsmálum á tímum hraðra breytinga, tíma markaðshyggju, tíma nýsköpunar, skapandi gervigreindar og í nútíma þar sem framtíðarsýn breytist jafnhratt og við ýtum á enter.
Markaðsfólk og þau fyrirtæki sem starfa í markaðs- og samskiptamálum gegna mikilvægu hlutverki í mótun jákvæðra samfélagsbreytinga. Við vinnum með vörumerkjum, fyrirtækjum og stofnunum að því að endurskilgreina tilgang þeirra og byggja upp ábyrgar og árangursríkar samskiptaaðferðir. Í þessu felst einnig ábyrgð á að vernda og styðja við íslenska tungu í markaðsefni, því tungumálið er órjúfanlegur hluti af menningu okkar.
Markaðs-og auglýsingastofur eru í lykilhlutverki að tengja vörumerki við neytendur og þær eru með þeim fyrstu til að koma auga á og nýta sér yfirvofandi breytingar t.d. í frumskógi tækninnar, samfélagsmiðla og nú skapandi gervigreindar. Við erum vön því að stíga ölduna í brimsöltum ólgusjó breytinga, bregðast við þegar og þar sem við á og ráðleggja viðskiptavinum okkar um bestu aðgerðir hverju sinni.
Krafan um breytingar er og verður alltaf helsti hvati fyrirtækja í okkar geira. Okkar starf felst í því að hafa áhrif á hegðun fólks og knýja þannig fram breytingar, hvort sem um ræðir kauphegðun eða einfaldlega það hvernig fólk nýtir sér þjónustu. Samhliða þessu berum við ábyrgð á að stuðla að sjálfbærni og samfélagslegri vitund í okkar störfum.
Gervigreind er og verður stór hluti af þeim breytingum sem fyrirtæki og samfélagið allt þarf að takast á við næstu misseri. Íslenskar auglýsingastofur hafa þegar sýnt frumkvæði í þessum efnum, til dæmis með því að þróa skapandi lausnir þar sem mannleg snerting og tæknilegar framfarir vinna saman. Fyrirtæki vilja almennt notfæra sér gervigreind til að bæta rekstur og auka framleiðni, og auglýsingageirinn er þar ekki undanskilinn. Við viljum efla sköpunarkraft starfsfólks samhliða aukinni hagræðingu.
Markaðs- og auglýsingastofur hafa í gegnum tíðina verið fljótar að tileinka sér nýjungar og gervigreind hefur um nokkurt skeið verið kærkomin viðbót í verkfærakistu hönnuða, birtingasérfræðinga, textafólks og fleiri. Endamarkmiðið er að auka og hámarka gæði þeirrar þjónustu og vinnu sem fyrirtæki kaupa af okkur, sem og að tryggja blandaða færni í verklagi lausnasköpunar.
Þó að sum störf muni umbreytast og önnur jafnvel úreldast í kjölfar tæknibreytinga, þá skapast á sama tíma ný tækifæri og störf. Framtíðin kallar á aukna framsýni, sköpunarkraft og nýsköpun – byggða á traustum grunni þekkingar, reynslu og virðingar fyrir samfélagi okkar. SÍA mun leiða þessar breytingar af festu og framsýni, styðja við félaga sína í umbreytingunni og tryggja að íslenskur markaðs- og auglýsingageiri haldi áfram að vera í fremstu röð þegar kemur að sköpunarkrafti og fagmennsku.
Ekki má svo gleyma að ítreka mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir þróun atvinnugreinarinnar og því verkefni að auðvelda og hvetja til innkaupa, hvort sem er einkarekinna eða opinberra á íslenskri listsköpun, hönnun og framleiðslu. Það er gert í gegnum fagleg samskipti, þar sem þekking, stefnumótun, hugmynda-og hönnunar ferli eru . Þannig getum við þróað blómlegt atvinnulíf og samfélag til framtíðar, byggt á íslenskri sköpun, hugviti, þekkingu og menningararfi.