I. ALMENN ÁKVÆÐI UM STARFSHEFÐIR VIÐ AUGLÝSINGAGERÐ OG MARKAÐSSKILABOÐ

1. grein
Grundvallar-meginreglur
Allar auglýsingar eiga að vera lögum samkvæmt, sæmandi, heiðarlegar og segja sannleikann.
Allar auglýsingar skulu gerðar með viðeigandi hliðsjón af félagslegri og faglegri ábyrgð og þær ættu að vera í samræmi við meginreglur um heiðarlega samkeppni eins og þær eru almennt viðurkenndar í starfsgreininni.
Auglýsingar ættu aldrei að vera þannig úr garði gerðar að þær skerði traust almennings á auglýsingastarfsemi.
2. grein
Velsæmi
Auglýsingar eiga hvorki að innihalda fullyrðingar né hljóð- eða myndefni sem brýtur gegn þeirri almennu velsæmiskennd sem á hverjum tíma ræður ríkjum í því landi og þeim menningarheimi sem málið varðar.
3. grein
Heiðarleiki
Auglýsingar ber að vinna þannig að traust neytandans, takmarkaður reynsluheimur eða þekking sé ekki misnotuð.
Miðla skal þeim þáttum, sem líklegir eru til þess að hafa áhrif á ákvarðanir neytenda, þannig og á þeim tíma að neytendur geti tekið þá með í reikninginn.
4. grein
Félagsleg ábyrgð
Auglýsingar eiga að sýna mannlegri reisn virðingu og ættu ekki að innihalda neitt sem hvatt getur til mismununar af neinu tagi eða afsakað hana, þar með talin mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernis, kyn, aldurs, fötlunar eða kynhneigðar.
Auglýsingar eiga ekki að ástæðulausu að höfða til ótta fólks eða nýta sér ógæfu eða þjáningar þess.
Auglýsingar eiga hvorki að virðast leggja blessun sína yfir ofbeldi eða ólöglegt og andfélagslegt atferli né hvetja til þess.
Auglýsingar eiga ekki að höfða til hjátrúar.
5. grein
Sannleiksgildi
Auglýsingar eiga að virða sannleikann og villa ekki um fyrir fólki.
Auglýsingar eiga hvorki að innihalda staðhæfingar né hljóð- eða myndefni sem líklegt er til að villa um fyrir neytandanum, beint eða óbeint, með því að gefa eitthvað í skyn, halda eftir nauðsynlegum upplýsingum eða með því að nota tvíræða framsetningu eða ýkjur. Þetta snertir einkum en þó ekki aðeins:
 • efnislegt eðli afurða, það er þætti sem sennilega hafa áhrif á val neytenda, til dæmis: eðli, samsetningu, framleiðsluaðferð og framleiðslutíma, notagildi, skilvirkni og notkunarsvið, magn, viðskiptalegan eða landfræðilegan upprunalegs eða umhverfisáhrif,
 • verðmæti vörunnar og heildarkostnað neytandans,
 • afhendingarskilmála, skipti, vöruskil, viðgerðir og viðhaldsþjónustu,
 • ábyrgðarskilmála,
 • höfundarrétt og eignarrétt vegna framleiðslu, til dæmis einkaleyfi, vörumerki, hönnun og líkön og viðskipta- og vöruheiti,
  hvað varðar það að uppfylla staðla,
 • opinbera viðurkenningu eða samþykki, nafnbætur á borð við heiðurspeninga, verðlaun og heiðursskjöl,
 • hlutfall framlags til góðgerðarmála.
6. grein
Notkun tækniupplýsinga og vísindalegra gagna, hugtaka og íðorða
Í auglýsingum á ekki
 • að misnota tæknilegar upplýsingar, t.d. niðurstöður rannsókna eða tilvitnanir úr tækni- og vísindablöðum,
 • að kynna tölfræðilegar upplýsingar þannig að þar séu ýktar fullyrðingar um ágæti vörunnar,
 • að nota vísindaleg hugtök eða orðaforða þannig að það gefi ranglega til kynna að fullyrðing um vöruna sé vísindalega staðfest.
7. grein
Að nota orðin „ókeypis“ og „ábyrgð“
Hugtakið „ókeypis“, t.d. í „ókeypis gjöf“ eða „ókeypis tilboð“ ætti því aðeins að nota
 • þegar tilboðið felur alls enga skuldbindingu í sér, eða
 • þegar eina skuldbindingin felst í því að greiða sendingar- og umsjónarkostnað, sem ekki má fram yfir það sem auglýsandinn gerir ráð fyrir, eða
 • í tengslum við kaup á annarri vöru, að því gefnu að verð þeirrar vöru hafi ekki verið hækkað til þess að mæta kostnaði við tilboðið, að öllu leyti eða að hluta til.
Í auglýsingu á ekki að fullyrða eða gefa til kynna að „trygging“, „ábyrgð“ eða önnur sambærileg orð eða fullyrðingar færi neytandanum viðbótarréttindi fram yfir þau sem lögbundin er, sé ekki um það að ræða. Neytandinn á að hafa greiðan aðgang að öllum skilmálum trygginga eða ábyrgða, þar með talið nafn og heimilisfang ábyrgðarmannsins, og þar sem það er heimilt samkvæmt lögum ættu allar takmarkanir á rétti eða úrbótum neytandans að vera greinilegar og áberandi.
8. grein
Staðfestingar
Þegar notaðar eru í auglýsingum lýsingar, fullyrðingar eða teikningar sem eru sannanlegar staðreyndir, ætti að vera hægt að ganga úr skugga um hvort þær séu réttar. Þannig staðfestingar eiga að vera aðgengilegar þannig að hægt sé að leggja fram sannanir tafarlaust samkvæmt beiðni hjá þeim sjálfseftirlitssamtökum sem bera ábyrgð á framkvæmd siðareglnanna.
9. grein
Auðkenning
Auglýsingar eiga að vera auðþekktar sem slíkar, burtséð frá því á hvaða formi þær eru og hvaða miðill er notaður. Þegar auglýsing birtist í miðli sem einnig birtir fréttir eða ritstjórnarefni, á framsetningin að vera þannig að hún sé auðþekkjanleg sem auglýsing og greinilega komi fram hver auglýsandinn er (sjá einnig 10. grein).
Auglýsingar eiga ekki að villa á sér heimildir um hver raunverulegur tilgangur þeirra er. Það á til dæmis ekki að kynna þær sem markaðsrannsóknir eða neytendakannanir ef tilgangurinn með þeim er viðskiptalegs eðlis, það er til að selja vöru.
10. grein
Kennimörk
Það á að vera augljóst hver auglýsandinn er. Þetta á ekki við um auglýsingar sem hafa sér þann tilgang einan að laða athygli að síðari auglýsingum (það er svonefndar „teaser-auglýsingar“).
Þegar það á við eiga auglýsingar að innihalda upplýsingar um tengiliði til að gefa neytandanum færi á að ná sambandi við auglýsandann án vandkvæða.
11. grein
Samanburður
Sé samanburður notaður í auglýsingum skal þess gætt að samanburðurinn sjálfur sé ekki villandi og að hann brjóti ekki gegn grundvallarreglum um sanngirni í samkeppni. Samanburðaratriði eiga að byggjast á staðreyndum sem ganga má úr skugga um og slík atriði skulu valin af sanngirni.
12. grein
Last
Í auglýsingum má ekki hallmæla neinum einstaklingi eða hópi einstaklinga, fyrirtæki, samtökum, iðnaðar- eða verslunarstarfsemi, starfsgrein eða vöru, með það fyrir augum að kalla fram opinbera fyrirlitningu eða hæðni.
13. grein
Vitnisburður
Auglýsingar mega hvorki innihalda eða vísa til vitnisburðar, meðmæla eða skjalfests stuðnings af neinu tagi nema slík umsögn sé raunverulega fyrir hendi og sannanlega málinu skyld. Ekki ætti að nota í auglýsingum vitnisburð sem orðinn er úreltur eða þykir misvísandi vegna aldurs.
14. grein
Myndir eða hermimyndir af einstaklingum og vísanir til persónulegra eigna
Í auglýsingum ætti hvorki að sýna né vísa til einstaklinga, hvort sem þeir starfa á eigin vegum eða á opinberu sviði, nema heimild hafi fengist fyrir því. Ekki ætti heldur að sýna eignir fólks í auglýsingum eða vísa til þeirra á neinn þann hátt sem túlka mætti sem meðmæli með viðkomandi afurð eða samtökum, nema að fengnu samþykki viðkomandi.
15. grein
Að misnota velvild
Í auglýsingum ætti ekki nota nafn, upphafsstafi, fyrirtækismerki og/eða vörumerki annars fyrirtækis, félags eða stofnunar, sé það óréttlætanlegt. Í auglýsingum ætti ekki að hagnýta að neinu óeðlilegu leyti þá velvild sem heiti, vöruheiti, merki eða önnur hugverkaeign óviðkomandi aðila hefur áunnið sér, né heldur þá velvild sem fengist hefur í öðrum auglýsingaherferðum án samþykkis viðkomandi.
16. grein
Eftirlíkingar
Við gerð auglýsingar skal ekki stæla uppsetningu og umbrot annarrar auglýsingar, texta hennar, slagorð, myndmál og áhrifatónlist eða hljóð á þann hátt sem líklegt er að villi um fyrir neytendum.
Þegar auglýsandi hefur komið á fót auðkennandi auglýsingaverkefni í einu eða fleiri löndum eiga aðrir auglýsendur ekki að stæla þær auglýsingar í öðrum löndum þar sem fyrrnefndi auglýsandinn gæti starfað þar sem slíkt myndi koma í veg fyrir eðlilega nýtingu hans á auglýsingaverkinu innan sanngjarns tímafrests.
17. grein
Öryggi og heilbrigði
Auglýsingar eiga ekki að sýna eða lýsa á neinn hátt hættulegu eða mögulega hættulegu atferli eða atvikum þar sem öryggi er hunsað, eins og það er skilgreint á hverjum stað, nema sérstök ástæða sé til þess í menntunarlegum eða félagslegum tilgangi. Leiðbeiningum um notkun eiga að fylgja viðeigandi varúðaryfirlýsingar og fyrirvarar, þar sem það er nauðsynlegt. Alltaf þegar sýnd er vara eða atferli sem felur í sér skert öryggi skal sýna börn undir eftirliti fullorðinna.
Í upplýsingum sem fylgja vöru eiga alltaf að vera fullnægjandi leiðbeiningar um notkun og ítarleg fyrirmæli um heilbrigðis- og öryggisþætti þegar þess gerist þörf. Nota ber myndir, texta eða hvoru tveggja í sameiningu svo þannig heilbrigðis- og öryggisviðvaranir séu skýrar.
18. grein
Börn og unglingar
Eftirfarandi ákvæði eiga við um auglýsingar sem beint er að börnum og unglingum eins og þau eru skilgreind í landslögum og þeim reglugerðum sem eiga við um þannig auglýsingar.
Sýna ber sérstaka aðgát í auglýsingum sem beint er að börnum eða unglingum eða þar sem þau koma fram.
 • Þannig auglýsingar mega ekki ganga gegn jákvæðri félagslegri hegðun, lífsstíl og viðhorfum.
 • Ekki ætti að auglýsa vörur sem ekki henta börnum eða unglingum í miðlum sem sérstaklega er beint til þeirra, og ekki ætti að setja auglýsingar ætlaðar börnum eða unglingum í miðla með ritstjórnarefni sem ekki hentar þessum hópi.
Sé efni ekki við hæfi barna ber að merkja það greinilega að svo sé.
Í 19. grein er að finna reglur um persónuvernd sem sérstaklega varða persónubundnar upplýsingar barna.
Reynsluleysi og trúgirni
Í auglýsingu á ekki að nýta sér reynsluleysi og trúgirni, einkum hvað varðar eftirfarandi svið:
1. Þegar verið er að sýna eiginleika og notagildi vöru eiga auglýsingar ekki
a)     að draga sem mest úr þeirri færni eða draga úr áherslu á það aldursstig sem nauðsynlegt er til þess að setja vöruna saman eða nota hana,
b)     að ýkja raunverulega stærð, verðmæti, eðli, endingu og frammistöðu vörunnar,
c)      að sleppa því að gefa upplýsingar um viðbótarkaup á borð við fylgihluti eða einstaka hluti í vörulínu eða syrpu sem nauðsynleg eru til þess að ná þeim árangri sem sýndur er eða lýst.
2. Það er viðeigandi að vísa til hugmyndaflugs barna á öllum aldri en ekki má gera þeim erfitt fyrir að greina á milli veruleika og ímyndunar.
3. Þegar auglýsingum er beint að börnum þurfa þær að vera ótvírætt auðþekkjanlegar sem slíkar.
Að forðast tjón og meiðsli
Auglýsingar eiga ekki að innihalda neinar þær fullyrðingar eða sjónræna meðferð sem gæti haft þau áhrif að valda börnum og unglingum andlegu, siðferðislegu eða líkamlegu tjóni. Ekki á að sýna börn og unglinga við ótryggar aðstæður eða þar sem þau gera eitthvað það sem gæti valdið þeim eða öðrum tjóni og ekki má hvetja þá til þess að taka þátt í starfsemi eða sýna atferli sem gæti reynst þeim hættulegt.
Félagsleg gildi
Auglýsingar eiga ekki að gefa til kynna að það færi barni eða unglingi líkamlegt, andlegt eða félagslegt forskot á önnur börn eða unglinga að ráða yfir auglýstri vöru eða nota hana, eða að það hafi þveröfug áhrif að ráða ekki yfir henni.
Auglýsingar mega á engan hátt ganga gegn valdi foreldra, ábyrgð þeirra, dómgreind eða smekk hvað varðar viðeigandi félagslegt og menningarlegt gildismat.
Auglýsingar mega ekki fela í sér neina beina hvatningu til barna og unglinga um að telja foreldra sína eða aðra fullorðna á að kaupa handa þeim vörur.
Ekki má kynna verð þannig að börn eða unglingar fái óraunhæfar hugmyndir um kostnað eða verðmæti vörunnar, til dæmis með því að gera sem minnst úr því. Auglýsingar eiga ekki að gefa til kynna að kaup á viðkomandi vöru séu þegar í stað á fjárhagslegu færi allra fjölskyldna.
Þegar börnum og unglingum er boðið í auglýsingum að hafa samband við auglýsandann ber að hvetja þá til þess að afla sér leyfis foreldris eða annars fullorðins, sé um að ræða einhvern kostnað, líka þann sem samskiptin kalla á.
Sérstakar reglur um auglýsingasamskipti við börn í rafrænum miðlum er að finna í kafla D í grein D7.
19. grein
Persónuvernd og friðhelgi
Þegar persónulegra upplýsinga og gagna er aflað hjá einstaklingum ber að gæta þess að virða og vernda friðhelgi þeirra með því að uppfylla allar viðeigandi reglur og reglugerðir.
Að afla upplýsinga
Þegar persónulegra upplýsingar er aflað hjá neytendum er fyrir öllu að tryggja að viðkomandi geri sér grein fyrir tilgangi þess að upplýsinganna er aflað og hvort stefnt sé að því að afhenda gögnin þriðja aðila svo hann geti notfært sér þau í markaðsfærslu sinni. Sé ekki hægt að tilkynna það viðkomandi á meðan á söfnun gagna stendur, ber að gera það eins fljótt og hægt er síðar.
Að hagnýta upplýsingar
Þegar einkaupplýsinga er aflað í tengslum við siðareglur þessar ber að
 • afla þeirra í tilgreindum og lögmætum tilgangi og ekki má nota þær á neinn þann hátt sem ekki er í samræmi við þann tilgang,
 • gera það á fullnægjandi og viðeigandi hátt og ekki umfram það sem efni standa til við söfnun þeirra og/eða frekari úrvinnslu,
 • hafa þær nákvæmar og dagréttar,
 • varðveita þær ekki lengur en þarf í ljósi tilgangsins með söfnun þeirra eða frekari úrvinnslu.
Öryggi við úrvinnslu
Hafa ber viðeigandi öryggisaðgerðir í fullum heiðri og taka ber tillit til viðkvæmra persónuupplýsinga með það fyrir augum að hindra aðgengi óviðkomandi að þeim eða að birta þær öðrum.
Sé upplýsingum komið áfram til þriðja aðila ætti að ganga úr skugga um að sá aðili framfylgi að minnsta kosti jafnströngum öryggisreglum.
Persónulegar upplýsingar barna
Þegar persónulegar upplýsingar eru fengnar frá börnum ber að gefa foreldrum upplýsingar um að friðhelgi barnsins sé að fullu virt.
Börn á að hvetja til þess að afla sér leyfis foreldris eða annars viðeigandi fullorðins einstaklings áður en þau gefa upplýsingar í rafrænum miðlum, auk þess sem grípa ber til eðlilegra ráðstafana til þess að kanna að þannig leyfi hafi verið gefið.
Ekki ber að afla frekari upplýsinga en þeirra sem nauðsynlegar eru svo barnið geti tekið þátt í þeirri starfsemi sem um ræðir.
Ekki ætti að nota gögn sem aflað hefur verið hjá börnum til þess að beina markaðsaðgerðum að foreldum þeirra eða öðrum ættingjum án samþykkis foreldrisins.
Í Kafla D, grein D7, er að finna frekari reglur sem varða sérstaklega markaðsaðgerðir gagnvart börnum með aðstoð rafrænna miðla eða síma.
Verndun friðhelgi einkalífsins
Þeir sem safna gögnum í tengslum við markaðsstarfsemi ættu að setja sér stefnu um verndun friðhelgi einkalífsins. Skilmálar þeirra ættu að vera neytendum aðgengilegir og þar ætti að vera að finna skýra yfirlýsingu um hvort verið sé að safna einhverjum gögnum eða vinna úr þeim, hvort sem það er augljóst eða ekki.
Réttindi neytandans
Grípa ber til viðeigandi aðgerða til þess að tryggja að neytendur skilji réttindi sín og framfylgi þeim,
 • að geta valið um að hafna markaðslistum (þar með talinn rétturinn til þess að skrá sig fyrir almennri forgangsþjónustu),
 • að krefjast þess að upplýsingar þeirra séu ekki afhentar þriðju aðilum vegna markaðsaðgerða þeirra, og
 • að leiðrétta rangar upplýsingar sem geymdar eru um þá.
Hafi neytandi lagt fram ósk um að fá ekki markaðs- og kynningarefni með sérstökum miðli, hvort sem um er að ræða forgangsþjónustu eða á annan hátt, ber að virða þá ósk. Í Kafla D er að finna ítarlegri reglur sem sérstaklega varða notkun á rafrænum miðlum og réttindi neytenda.
Viðskipti yfir landamæri
Sérstaka aðgát skal sýna um persónuvernd einstaklings þegar upplýsingar og gögn eru send frá því landi sem þeim var safnað til annars lands.
Þegar úrvinnsla gagna fer fram í öðru landi ber að grípa til allra eðlilegra ráða til þess að tryggja að viðeigandi öryggisráðstafanir séu fyrir hendi og að virtar séu meginreglur um persónuvernd eins og þær birtast í þessum siðareglum. Mælt er með því að farið sé að þeim ákvæðum í siðareglunum sem varða samkomulag þess sem safnaði upplýsingunum og þeim sem vinnur úr þeim eða hagnýtir sér þær í öðru landi.
20. grein
Gagnsæi og kostnaður við samskiptin
Þegar kostnaður neytenda við að nálgast auglýsingu eða eiga samskipti við markaðsaðilann er hærri en almennur kostnaður við póstburðargjöld eða símtöl, þ.e. að greidd eru „aukagjöld“ fyrir skilaboð á Netinu eða í símanúmeri, ber að gera neytendum skýra grein fyrir þessum kostnaði, annað hvort sem „kostnaði á mínútu“ eða sem „kostnaði á hver skilaboð“. Þegar þessum upplýsingum er komið á framfæri á Netinu, ber að gera neytendum skýra grein fyrir því þegar þeir eru að opna skilaboðin eða Netþjónustuna og gefa þeim sanngjarnan frest til þess að aftengjast án þess að gjaldið sé innheimt.
Þegar samskiptin fela í sér þannig kostnað ber að forðast að láta neytandann bíða í óeðlilega langan tíma eftir því sem á að felast í samskiptunum, auk þess sem ekki á að byrja að innheimta gjald fyrir símhringingar fyrr en neytandinn fer að fá þær upplýsingar sem málið snýst um.
21. grein
Óumbeðnar vörur og ótilgreindur kostnaður
Forðast ber markaðsskilaboð sem byggjast á því að senda óumbeðnar vörur til neytenda sem síðan eru beðnir um greiðslu (ágengar/ávirkar söluaðferðir), þar með taldar yfirlýsingar eða tillögur sem viðtakendur eru beðnir um að taka við og greiða fyrir.
Þetta ætti að koma ótvírætt fram í markaðsskilaboðum þar sem beðið er um svar sem jafngildir pöntun og sem leiðir til innheimtu á greiðslu (t.d. skráning í rit).
Ekki má leggja fram markaðsskilaboð þannig að hægt sé að ruglast á þeim og reikningi, eða gefa ranglega til kynna á annan hátt að greiða beri gjald.
Í Kafla D, Grein D5 er að finna sértækar reglur um óumbeðin tölvuskeyti í viðskiptaskyni.
22. grein
Umhverfi og atferli
Markaðsskilaboð eiga ekki að virðast leggja blessun sína yfir eða hvetja til aðgerða sem ganga gegn lögum, sjálfstæðum siðareglum eða almennt viðurkenndum stöðlum um ábyrgt atferli gagnvart umhverfinu. Þeim ber að byggjast á þeim meginreglum sem fram koma í Kafla E, Fullyrðingar um umhverfismál, í markaðsskilaboðum.
23. grein
Ábyrgð
Þessar almennu reglur um ábyrgð ná til allra markaðsskilaboða, sama í hvaða mynd þau eru.
Lesa má um reglur um ábyrgð, sem sérstaklega snerta ákveðna starfsemi eða miðla, í þeim köflum sem fjalla um þannig starfsemi og miðla.
Auglýsingahönnuður eða -stofa bera, ásamt útgefanda, eiganda miðils eða viðsemjanda og þeim markaðsmanni sem auglýsir vörur sínar í viðkomandi markaðsskilaboðum, ábyrgð á því að farið sé eftir þeim reglum um hegðun sem fram koma í þessum siðareglum.
Seljendur bera yfirskipaða ábyrgð á markaðsskilaboðum vegna vöru sinnar.
Auglýsingastofur og aðrir auglýsingagerðarmenn ættu að sýna viðeigandi varúð og kostgæfni við gerð markaðsskilaboða og ættu að vinna með það fyrir augum að gera seljendum færi á að standa við ábyrgð sína.
Útgefendur, eigendur miðla eða viðsemjendur, sem gefa út, miðla eða dreifa markaðsskilaboðum, ættu að sýna viðeigandi aðgæslu þegar þeir taka við þeim og dreifa þeim til almennings.
Einstaklingar ráðnir af fyrirtæki, félagi eða stofnun sem fellur í einhvern ofangreindra flokka og sem tekur þátt í því að skipuleggja markaðsskilaboð, búa þau til, gefa út eða dreifa, bera á því ábyrgð í samræmi við stöðu sína að tryggja að farið sé eftir siðareglum þessum og eiga að starfa í samræmi við það.
Siðareglurnar eiga við markaðsskilaboð og form þeirra í heild sinni, þar með talin meðmæli og yfirlýsingar og hljóð og mynd sem á uppruna sinn annars staðar. Jafnvel þótt innihald og form markaðsskilaboða sé upprunnið að öllu leyti eða að hluta til frá öðrum aðilum, réttlætir það ekki að siðareglur þessar séu sniðgengnar.
24. grein
Áhrif meðfylgjandi úrbóta vegna brots
Æskilegt er að ábyrgi aðilinn leiðrétti brot gegn siðareglunum og/eða bæti fyrir það á viðeigandi hátt en það afsakar ekki brotið.
25. grein
Framkvæmd
Allir viðeigandi aðilar sem ástunda sjálfseftirlit, hvort sem er í héraði, svæðisbundið eða á landsvísu, ættu að staðfesta siðareglurnar og þær meginreglur sem þar er að finna og hrinda þeim í framkvæmd, bæði á landsvísu og alþjóðlega. Allar stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar sem koma að eða eiga þátt í einhverju þrepi við gerð og framsetningu markaðsskilaboða/auglýsinga, ættu að framfylgja siðareglunum, þar sem það á við.
Seljendur, auglýsingagerðarmenn eða auglýsingastofur, útgefendur, eigendur miðla og viðsemjendur ættu að kynna sér siðareglurnar og aðrar viðeigandi leiðbeiningar um sjálfseftirlit á hverjum stað um auglýsingar og önnur markaðsskilaboð. Þeim ber auk þess að kynna sér niðurstöður viðeigandi aðila um sjálfseftirlit.
26. grein
Að virða ákvarðanir teknar á grundvelli sjálfseftirlits
Enginn seljandi, auglýsingagerðarmaður eða auglýsingastofa, útgefandi, eigandi miðils eða viðsemjandi ættu að taka þátt í útgáfu eða dreifingu á auglýsingu eða öðrum markaðsskilaboðum sem viðeigandi sjálfseftirlitsaðili hefur metið svo að séu óviðunandi.
Allir málsaðilar eru hvattir til þess að fella yfirlýsingu inn í samninga sína og annað það samkomulag sem varðar auglýsingar og önnur markaðsskilaboð um að þeir skuldbindi sig til þess að fara eftir öllum viðeigandi reglum um sjálfseftirlit og að virða ákvarðanir og úrskurði sem viðeigandi sjálfseftirlitsaðili hefur tekið eða kveðið upp.
Ef enginn sjálfseftirlitsaðili starfar löglega í viðkomandi landi eru allir málsaðilar hvattir til að hafa yfirlýsingu í samningum sínum og samþykktum um auglýsinga- og kynningarmál sem segir að þeir fylgi í öllu siðareglum viðkomandi lands.