Lög Sambands íslenskra auglýsingastofa

1. gr.  Nafn og heimili.

Félagið heitir “Samband íslenskra auglýsingastofa” (skammstafað SÍA), á ensku Society of Icelandic Advertising Agencies.  Heimili SÍA og varnarþing er í Reykjavík.

SÍA er félagsskapur auglýsingastofa, birtingahúsa og fyrirtækja á sviði samskipta, þ.e. fyrirtækja á sviði auglýsingagerðar og markaðsráðgjafar hvers konar,  samkvæmt nánari skilgreiningu  í 3. grein þessara laga.

2. gr. Hlutverk.

Tilgangur SÍA er eftirfarandi:

 1. Að efla faglega hæfni aðildarfyrirtækjanna til þess að veita sem fullkomnasta þjónustu á öllum sviðum auglýsinga- og markaðsmála.
 2. Að annast almenna kynningarstarfsemi til þess að auka þekkingu og skilning á auglýsinga- og markaðsfræðum og starfsemi auglýsingastofa.
 3. Að koma fram fyrir hönd aðildarfyrirtækjanna gagnvart opinberum aðilum, hagsmunasamtökum og hliðstæðum samtökum erlendis.

3. gr.  Aðild.

Aðilar að SÍA geta orðið  þær auglýsingastofur, sem viðurkenna lög og samþykktir samtakanna og uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Stjórnendur auglýsingastofu skulu hafa staðgóða faglega þekkingu á fyrirtækjarekstri, markaðsmálum og á sviði auglýsingagerðar og markaðsráðgjafar.
 1.   Auglýsingastofa skal:
 1. Hafa sýnt fram á faglega starfshæfni sína og traustan rekstur í a.m.k. 2 ár fyrir umsókn um aðild.
 1. Starfa fjárhagslega og skipulagslega  óháð  viðskiptavinum sínum og hvers konar auglýsingamiðlum, svo og öðrum þeim er hafa hagsmuna að gæta í sambandi við ráðstöfun auglýsingafjár.
 2. Geta innt af hendi faglega vinnu á verksviði almennrar auglýsinga-, birtinga og markaðsþjónustu.
 3. Starfa í fullu samræmi við gildandi lög og reglur um auglýsingar og siðareglur SÍA og Alþjóðaviðskiptaráðsins.

Nýir aðilar að SÍA skuldbinda sig til að verða einnig félagsmenn í Félagi atvinnurekenda og þurfa að ganga frá skráningu í félagið innan 2 vikna frá því að umsókn um aðild að SÍA hefur verið samþykkt ella fellur samþykkið niður.

4. gr.  Aðildarumsókn.

Fyrirtæki, sem óskar eftir aðild að SÍA, skal senda umsókn til skrifstofu sambandsins og skal hún lögð fyrir stjórn SÍA  til umsagnar.  Næsti aðalfundur tekur ákvörðun um umsóknina.

Umsókn um aðild má einnig leggja fyrir félagsfund á starfsárinu og skal sá fundur þá boðaður með sama hætti og aðalfundur.

Til þess að umsókn teljist samþykkt þarf hún samþykki 2/3 hluta atkvæðamagns á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum félagsfundi.

5. gr. Árgjald.

Stjórn SÍA gerir árlega tillögu um árgjald aðildarfyrirtækja og leggur hana fyrir aðalfund til samþykktar.

Árgjöld skulu greidd fyrirfram og falla þau í gjalddaga 15. apríl ár hvert. Heimilt er stjórn SÍA að ákveða greiðsludreifingu á starfsárinu, sem gildi fyrir öll aðildarfyrirtæki. Fyrirtæki, sem gerast aðilar á starfsári milli aðalfunda, skulu greiða árgjöld hlutfallslega.

Hafi aðildarfyrirtæki ekki greitt árgjald sitt fyrir lok starfsárs, þrátt fyrir ítrekanir þar um, er heimilt að má nafn þess af aðildarskrá  með samþykki aðalfundar, sbr. 8. gr.

6. gr. Skráning.

Þegar væntanlegt aðildarfyrirtæki hefur greitt fyrsta árgjald sitt, telst það hafa löglega aðild skv. 3. gr. og skal nafn þess skráð í aðildarskrá SÍA.  Hverju aðildarfyrirtæki er skylt að hlíta lögum SÍA og reglum sem gilda hverju sinni.

7. gr. Úrsögn.

Úrsögn úr SÍA skal vera skrifleg og berast skrifstofu SÍA fyrir 1. febrúar.  Gildir  hún þá frá næsta aðalfundi.  Aðildarfyrirtæki, sem segir sig úr SÍA, á engar kröfur í eignir, sem kunna að vera til í sjóðum sambandsins.

Aðildarfyrirtæki þurfa að segja sig sérstaklega úr Félagi atvinnurekenda.

8. gr. Brottvikning.

Rýrni starfshæfni aðildarfyrirtækis svo að það uppfylli ekki þau skilyrði sem sett eru í 3. gr. má víkja því úr félaginu. Komi fram rökstudd tillaga um brottvikningu, skal viðkomandi fyrirtæki gefinn kostur á að tjá sig áður en tillagan er tekin til afgreiðslu. Brottvikning skal staðfest á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum félagsfundi með 2/3 hlutum atkvæðamagns á fundinum.

9. gr. Aðalfundur.

Aðalfund skal halda fyrir lok marsmánaðar ár hvert.

Stjórn SÍA skal boða aðalfund skriflega í ábyrgðarbréfi, með tölvupósti, í símskeyti eða á annan jafntryggan hátt með minnst 6 virkra daga fyrirvara.  Aðalfundur telst löglegur sé rétt til hans boðað.  Aðalfundur er æðsta vald í öllum málefnum SÍA, innan þeirra marka er lögin setja.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Skýrsla gjaldkera.  Lagðir skulu fram reikningar sambandsins, endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.
 3. Ákvörðun árgjalda
 4. Lagabreytingar
 5. Kjör formanns og stjórnarmanna
 1. Kjör tveggja skoðunarmanna.
 2. Kjör nefndarmanna í siðanefnd SÍA
 3. Umfjöllun um aðild að SÍA, gefist tilefni til.
 4. Reglur um fjárhagslegt umfang nýrra aðildarfyrirtækja með hliðsjón af   markaðsaðstæðum hverju sinni.
 5. Önnur mál.

Starfsár SÍA telst vera tímabilið milli árlegra aðalfunda.

10. gr. Félagsfundir.

Félagsfundi skal halda þegar stjórnin  ákveður.  Einnig ef 2/3 aðildarfyrirtækja óska þess skriflega, og skal þá til þeirra boðað á sama hátt og til aðalfunda.

11. gr. Atkvæðisréttur.

Hvert aðildarfyrirtæki skal í upphafi starfsárs tilnefna tvo fulltrúa og einn til vara, sem sæki aðalfund og félagsfundi SÍA og fara þeir með atkvæðisrétt á fundunum.

Atkvæðisrétt hafa þeir einir, sem skuldlausir eru við sambandið.

12. gr. Stjórn og kosningar.

Á aðalfundi skulu kosnir 3 menn í stjórn og einn til vara, til eins árs í senn.  Formaður skal kjörinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum.  Stjórnarkjör skal fara fram skriflega, sé þess sérstaklega óskað.

Stjórnin stýrir málefnum SÍA milli aðalfunda.  Ákvarðanir sem teknar eru á stjórnarfundum skal bóka í sérstaka fundargerðabók.  Fundargerðin skal lesin upp í síðasta lagi á næsta fundi og undirrituð.

Stjórn félagsins getur skipað uppstillingarnefnd. Hlutverk hennar er að sjá til þess að nægur fjöldi frambjóðenda sé í kjöri hverju sinni.

Starfsár félagsins og reikningsár er almanaksárið. Löggiltur endurskoðandi eða skoðunarmenn, sem kjörnir eru til eins árs, skulu annast tölulega endurskoðun/yfirferð reikninga félagsins.

13. gr. Nefndir

Innan SÍA skal starfa 7 manna siðanefnd sem kosin er árlega á aðalfundi SÍA.

Hlutverk siðanefndar er að leysa úr kærum vegna meintra brota á siðareglum SÍA.

Félagsfundir eða stjórn SÍA geta skipað nefndir ad hoc þegar fjalla þarf um sérstök málefni sem ekki falla undir verksvið siðanefndar.

14. gr. Reglugerðir.

Stjórn SÍA setur reglugerðir samkvæmt lögum þessum eftir því sem við á og skulu þær öðlast gildi að fengnu samþykki félagsfundar. Aðalfundur SÍA setur og breytir siðareglum SÍA.

15. gr. Lagabreytingar.

Lögum sambandsins verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi enda hafi þess verið getið í fundarboði að lagabreytingar yrðu til meðferðar á fundinum og sé lagabreytingin samþykkt með minnst 2/3 hlutum atkvæða.

16. gr. Slit félags

Ákvörðun um slit SÍA skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til þeirra mála sem ákveðin verða á slitafundi að undanskildum árgjöldum sem renna skulu til félagsmanna.


Lög SÍA endurskoðuð í febrúar 2003.

Lög SÍA endurskoðuð á aðalfundi SÍA mars 2010.

Lög SÍA endurskoðuð á aðalfundi SÍA mars 2011.

Lög SÍA endurskoðuð á aðalfundi SÍA apríl 2018.

Lög SÍA endurskoðuð á aðalfundir SÍA mars 2022.

Lög SÍA endurskoðuð á aðalfundi SÍA mars 2023.