Siðareglur SÍA um auglýsingagerð og markaðsskilaboð

1. GR. – ALMENNAR MEGINREGLUR

Allar auglýsingar eiga að vera lögum samkvæmt, sæmandi, heiðarlegar og segja sannleikann.

Allar auglýsingar skulu gerðar með viðeigandi hliðsjón af félagslegri og faglegri ábyrgð og þær ættu að vera í samræmi við meginreglur um heiðarlega samkeppni eins og þær eru almennt viðurkenndar í starfsgreininni.

Auglýsingar ættu aldrei að vera þannig úr garði gerðar að þær skerði traust almennings á auglýsingastarfsemi.

2. GR. – FÉLAGSLEG ÁBYRGÐ

Auglýsingar eiga að sýna mannlegri reisn virðingu og ættu ekki að innihalda neitt sem hvatt getur til mismununar af neinu tagi eða afsakað hana, þar með talin mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernis, trúarbragða, kyns, aldurs, skerðingar eða kynhneigðar.

Auglýsingar eiga ekki að ástæðulausu að höfða til ótta fólks eða nýta sér ógæfu þess eða þjáningar.

Auglýsingar eiga hvorki að virðast leggja blessun sína yfir ofbeldi eða ólöglegt og andfélagslegt atferli né hvetja til þess.

Auglýsingar eiga ekki að höfða til hjátrúar.

3. GR. – VELSÆMI

Auglýsingar eiga hvorki að innihalda fullyrðingar né hljóð- eða myndefni sem brýtur gegn ríkjandi almennri velsæmiskennd á hverjum tíma í landinu og þeim menningarheimi sem málið varðar.

4. GR. – HEIÐARLEIKI

Auglýsingar ber að vinna þannig að hvorki traust neytandans né takmarkaður reynsluheimur eða þekking viðkomandi sé misnotuð.

Miðla skal þeim þáttum, sem líklegir eru til að hafa áhrif á ákvarðanir neytenda, með þeim hætti og á þeim tímapunkti að neytendur geti tekið þá með í reikninginn.

5. GR. – SANNLEIKSGILDI

Auglýsingar eiga að virða sannleikann og ekki vera villandi.

Auglýsingar eiga hvorki að innihalda yfirlýsingar, staðhæfingar, hljóð- né myndefni sem líklegt er til að villa um fyrir neytandanum, beint eða óbeint, með því að gefa eitthvað í skyn, sleppa nauðsynlegum upplýsingum eða með því að nota tvíræða framsetningu eða ýkjur, hvað varðar:

  • efnislega þætti afurða, það er það sem sennilega hefur áhrif á val neytenda, til dæmis: eðli, samsetningu, framleiðsluaðferð og -dagsetningu, notagildi, skilvirkni og notkunarsvið, magn, viðskiptalegan eða landfræðilegan uppruna eða umhverfisáhrif
  • verðmæti vörunnar og heildarkostnað neytandans
  • afhendingarskilmála, útvegun, skipti, vöruskil, viðgerðir og viðhaldsþjónustu
  • ábyrgðarskilmála
  • höfundarrétt og eignarrétt vegna framleiðslu, til dæmis einkaleyfi, vörumerki, hönnun og líkön og viðskipta- og vöruheiti
  • samræmingu við staðla
  • opinbera viðurkenningu eða vottun, nafnbætur á borð við heiðurspeninga, verðlaun og heiðursskjöl
  • hlutfall framlags til góðgerðarmála

6. GR. – STAÐFESTINGAR

Þegar notaðar eru í auglýsingum lýsingar, fullyrðingar eða teikningar tengdar sannanlegum staðreyndum, ætti að vera hægt að staðfesta réttmæti þeirra. Fullyrðingar sem lýsa því yfir eða gefa til kynna að þannig staðfesting sé fyrir hendi þurfa að minnsta kosti að vera jafn vel staðfestar og segir í auglýsingunni. Þannig staðfestingar eiga að vera aðgengilegar þannig að hægt sé að leggja fram sannanir tafarlaust samkvæmt beiðni siðanefndar SÍA.

7. GR. – AUÐKENNING OG GAGNSÆI

Auglýsingar eiga að vera auðþekktar sem slíkar, sama á hvaða formi þær eru og hvaða miðill er notaður.  Þegar auglýsing, þar með taldar svonefndar efnistengdar auglýsingar (native advertising), birtist í miðli með fréttum eða ritstjórnarefni, á hún að vera þannig fram sett að hún sé auðþekkjanleg sem auglýsing og merkt þannig ef við á.

Auglýsingar eiga ekki að villa á sér heimildir um hver raunverulegur viðskiptalegur tilgangur þeirra er og ekki að gefa ranga hugmynd um raunverulegan viðskiptalegan tilgang. Því ætti ekki að dulbúa kynningu söluvarnings sem til dæmis markaðsrannsóknir, neytendakannanir, notendamótað innihald, blogg einkaaðila, birtingar einstaklinga á félagsmiðlum eða sjálfstæða gagnrýni.

8. GR. – AUÐKENNI AUGLÝSANDA

Það á að vera augljóst hver auglýsandinn er. Þegar við á þurfa auglýsingar að innihalda samskiptaupplýsingar til að gefa neytandanum kleift að ná sambandi við auglýsandann án vandkvæða.

Þetta á ekki við um auglýsingar sem eiga sér þann tilgang einan að laða athygli að síðari auglýsingum (svonefndar „teaser-auglýsingar“ eða kitlur).

9. GR. – NOTKUN TÆKNILEGRA/VÍSINDALEGA UPPLÝSINGA OG HUGTAKA

Í auglýsingum á ekki:

  • að misnota tæknilegar upplýsingar, t.d. niðurstöður rannsókna eða tilvitnanir úr tækni- og vísindablöðum
  • að kynna tölfræðilegar upplýsingar þannig að þar séu ýktar fullyrðingar um ágæti vörunnar
  • að nota vísindaleg hugtök eða orðaforða þannig að það gefi ranglega til kynna að fullyrðing um vöruna sé vísindalega staðfest

Almenn ákvæði og skilgreiningar um auglýsingar og markaðsskilaboð

10. GR. – AÐ NOTA ORÐIN „ÓKEYPIS“ og „ÁBYRGГ

Hugtakið „ókeypis“, t.d. í „ókeypis gjöf“ eða „ókeypis tilboð“ ætti því aðeins að nota:

  • þegar tilboðið felur alls enga skuldbindingu í sér, eða
  • þegar eina skuldbindingin felst í því að greiða sendingarkostnað sem ekki má vera fram yfir það sem auglýsandinn gerir ráð fyrir
  • í tengslum við kaup á annarri vöru, að því gefnu að verð þeirrar vöru hafi ekki verið hækkað til þess að mæta kostnaði við tilboðið, að öllu leyti eða að hluta til

Þegar ókeypis reynslutími, ókeypis áskrift og sambærileg tilboð verða að viðskiptum sem greitt er fyrir í lok ókeypis tímabilsins ættu skilmálar og skilyrði við breytingu í greidda áskrift vera skýr, áberandi og ótvírætt sett fram áður en neytandinn þiggur tilboðið Sama máli gegnir þegar neytandi á að skila vöru í lok ókeypis tímabils, þá ætti að gera skýra grein fyrir því hver kostnaðurinn yrði. Ferlið við að skila vörunni ætti að vera eins einfalt og mögulegt er og allir tímafrestir verða að vera greinilega fram settir.

Í auglýsingu á ekki að fullyrða eða gefa til kynna að „trygging“, „ábyrgð“ eða önnur sambærileg orð eða fullyrðingar færi neytandanum viðbótarréttindi fram yfir þau sem lögbundin eru, sé ekki um það að ræða. Neytandinn á að hafa greiðan aðgang að öllum skilmálum trygginga eða ábyrgða, þar með talið nafn og heimilisfang ábyrgðarmannsins, og þar sem það er heimilt samkvæmt lögum ættu allar takmarkanir á rétti eða úrbótum neytandans að vera greinilegar og áberandi.

11. GR. – SAMANBURÐUR

Sé samanburður notaður í auglýsingum skal þess gætt að samanburðurinn sjálfur sé ekki villandi og að hann brjóti ekki gegn grundvallarreglum um sanngirni í samkeppni. Samanburðaratriði eiga að byggjast á staðreyndum sem hægt er að staðfesta og skulu valin af sanngirni.

12. GR. – LAST

Í auglýsingum má ekki hallmæla neinum einstaklingi eða hópi einstaklinga, fyrirtæki, samtökum, iðnaðar- eða verslunarstarfsemi, starfsgrein eða vöru, með það fyrir augum að kalla fram opinbera fyrirlitningu eða hæðni.

13. GR. – VITNISBURÐUR

Auglýsingar mega hvorki innihalda eða vísa til vitnisburðar, meðmæla eða skjalfests stuðnings af neinu tagi nema slík umsögn sé raunverulega fyrir hendi og sannanlega málinu skyld. Ekki ætti að nota í auglýsingum vitnisburð eða meðmæli sem orðin eru úrelt eða þykja misvísandi vegna aldurs. Gera ætti skýra grein fyrir kostuðu eðli meðmæla eða vitnisburðar með viðeigandi upplýsingum sé ekki hægt að skilja á annan hátt af formi og sniði auglýsingarinnar að um sé að ræða kostuð skilaboð.

14. GR. – MYNDIR EÐA HERMIMYNDIR AF EINSTAKLINGUM OG VÍSANIR TIL EINKAEIGNA

Í auglýsingum ætti hvorki að sýna né vísa til einstaklinga, hvort sem þeir starfa á eigin vegum eða á opinberu sviði, nema heimild hafi fengist fyrir því. Ekki ætti heldur að sýna eignir fólks í auglýsingum eða vísa til þeirra á neinn þann hátt sem túlka mætti sem meðmæli með viðkomandi afurð eða samtökum, nema að fengnu samþykki viðkomandi.

15. GR. – AÐ MISNOTA VELVILD

Í auglýsingum ætti ekki nota nafn, upphafsstafi, fyrirtækismerki og/eða vörumerki annars fyrirtækis, félags eða stofnunar, sé það ekki réttlætanlegt. Í auglýsingum ætti ekki að hagnýta að neinu óeðlilegu leyti þá velvild sem heiti, vöruheiti, merki eða önnur hugverkaréttindi sem óviðkomandi aðila hefur áunnið sér, né heldur þá velvild sem fengist hefur í öðrum auglýsingaherferðum án samþykkis viðkomandi.

16. GR. – EFTIRLÍKINGAR

Við gerð auglýsingar skal ekki stæla uppsetningu og umbrot annarrar auglýsingar, texta hennar, slagorð, myndmál og tónlist eða áhrifahljóð þannig að það geti villt um fyrir neytendum.

Þegar auglýsandi hefur komið á fót auðkennandi auglýsingaverkefni í einu eða fleiri löndum eiga aðrir auglýsendur ekki að líkja eftir þeim auglýsingum í öðrum löndum þar sem fyrrnefndi auglýsandinn gæti starfað og þannig koma í veg fyrir eðlilega nýtingu hans á auglýsingaverkefninu innan sanngjarnra tímamarka.

17. GR. – ÖRYGGI OG HEILBRIGÐI

Auglýsingar eiga ekki að sýna eða lýsa á neinn hátt hættulegu eða mögulega hættulegu atferli eða atvikum þar sem öryggi er hunsað, eins og það er skilgreint á hverjum stað, nema sérstök ástæða sé til þess í menntunarlegum eða félagslegum tilgangi. Leiðbeiningum um notkun eiga að fylgja viðeigandi öryggisyfirlýsingar og fyrirvarar, þar sem nauðsynlegt er. Alltaf þegar sýnd er vara eða atferli sem felur í sér skert öryggi skal sýna börn undir eftirliti fullorðinna.

Í upplýsingum sem fylgja vöru eiga alltaf að vera fullnægjandi leiðbeiningar um notkun og ítarleg fyrirmæli um heilbrigðis- og öryggisþætti þegar þess gerist þörf. Nota ber myndir, texta eða hvoru tveggja í sameiningu svo þannig heilbrigðis- og öryggisviðvaranir séu skýrar.

18. GR. – BÖRN OG UNGLINGAR

18.1     Almennar meginreglur

Sýna ber sérstaka aðgát í auglýsingum sem beint er að börnum eða unglingum eða þar sem þau koma fram.

  • Þannig auglýsingar mega ekki ganga gegn jákvæðri félagslegri hegðun, lífsstíl og viðhorfum.
  • Ekki ætti að auglýsa vörur sem ekki henta börnum eða unglingum eða sem lög meina þeim að kaupa í miðlum sem sérstaklega er beint til þeirra. 
  • Ekki ætti að setja auglýsingar ætlaðar börnum eða unglingum í miðla með ritstjórnarefni sem ekki hentar þessum hópi.

Í 19. gr. er að finna reglur um persónuvernd sem sérstaklega varða persónubundnar upplýsingar barna.

Aðrar sértækar reglur um markaðssetningu gagnvart börnum má finna sem hér segir:

  • hvað varðar beina markaðssetningu og stafræn samskipti vegna markaðssetningar, sjá gr. C7 í kafla C.
  • hvað varðar auglýsingar um matvæli og óáfenga drykki, sjá leiðbeiningar ICC um ábyrga markaðssetningu matvæla og drykkja. 

18. 2 Reynsluleysi og trúgirni barna

Í auglýsingum á ekki að nýta sér reynsluleysi og trúgirni barna, einkum hvað varðar eftirfarandi svið:

1. Þegar verið er að sýna eiginleika og notagildi vöru eiga auglýsingar ekki

  • að draga sem mest úr þeirri færni eða áherslu á það aldursstig sem nauðsynlegt er til þess að setja vöruna saman eða nota hana
  • að ýkja raunverulega stærð, verðmæti, eðli, endingu og frammistöðu vörunnar
  • að sleppa því að gefa upplýsingar um nauðsyn viðbótarkaupa á borð við fylgihluti eða einstaka hluti í vörulínu eða syrpu sem nauðsynleg eru til þess að ná þeim árangri sem sýndur er eða lýst

2. Það er viðeigandi að vísa til hugmyndaflugs barna á öllum aldri en ekki má gera þeim erfitt fyrir að greina á milli veruleika og ímyndunar.

3. Þegar auglýsingum er beint að börnum þurfa þær að vera þeim ótvírætt auðþekkjanlegar sem slíkar.

18.3 Að forðast tjón og meiðsli

Auglýsingar skulu ekki að innihalda neinar þær fullyrðingar eða sjónræna meðferð sem gæti leitt til andlegs, siðferðislegs eða líkamlegs tjóns barna og unglinga. Ekki á að sýna börn og unglinga við ótryggar aðstæður eða þar sem þau gera eitthvað það sem gæti valdið þeim eða öðrum tjóni og hvorki má hvetja til þátttöku í starfsemi sem gæti reynst þeim hættuleg né óviðeigandi atferlis í ljósi ætlaðs líkamlegs og andlegs atgervis markhópsins.

18.4 Félagsleg gildi

Auglýsingar eiga ekki að gefa til kynna að það færi barni eða unglingi líkamlegt, andlegt eða félagslegt forskot á önnur börn eða unglinga að ráða yfir auglýstri vöru eða nota hana, eða að það hafi þveröfug áhrif að ráða ekki yfir henni.

Auglýsingar mega á engan hátt ganga gegn valdi foreldra, ábyrgð þeirra, dómgreind eða smekk hvað varðar viðeigandi félagsleg og menningarleg gildi.

Auglýsingar mega ekki fela í sér neina beina hvatningu til barna og unglinga um að telja foreldra sína eða aðra fullorðna á að kaupa handa þeim vörur.

Ekki má kynna verð þannig að börn eða unglingar fái óraunhæfar hugmyndir um kostnað eða verðmæti vörunnar, til dæmis með því að gera sem minnst úr því. Auglýsingar eiga ekki að gefa til kynna að kaup á viðkomandi vöru séu þegar á fjárhagslegu færi allra fjölskyldna.

Þegar börnum og unglingum er boðið í auglýsingum að hafa samband við auglýsandann ber að hvetja þá til þess að afla sér leyfis foreldris eða annars fullorðins, sé um að ræða einhvern kostnað, líka þann sem samskiptin kalla á.

19. GR. – PERSÓNUVERND OG FRIÐHELGI

Þegar persónulegra upplýsinga er aflað hjá einstaklingum ber að gæta þess að virða og vernda friðhelgi einkalífsins með því að fara eftir öllum viðeigandi reglum og reglugerðum.

19.1 Öflun upplýsinga og tilkynning

Þegar persónulegra upplýsinga er aflað hjá neytendum er fyrir öllu að tryggja að viðkomandi geri sér grein fyrir tilgangi þess að upplýsinganna er aflað og hvort stefnt sé að því að afhenda gögnin þriðja aðila svo hann geti notfært sér þau í markaðsfærslu sinni. Með þriðju aðilum er ekki átt við umboðsmenn eða aðra sem veita auglýsingafyrirtækinu tæknilegan eða rekstrarlegan stuðning og sem nota hvorki né birta persónuupplýsingar í neinum öðrum tilgangi. Best er að tilkynna það viðkomandi á meðan á öflun gagna stendur, en sé það ekki hægt ber að gera það eins fljótt og hægt er síðar.

19.2 Gagnanotkun

Sé einkaupplýsinga aflað ber að gæta þess að:

  • þeirra sé aflað í tilgreindum og lögmætum tilgangi og þær eingöngu notaðar í samræmi við þann tilgang
  • það sé gert á fullnægjandi og viðeigandi hátt og ekki umfram það sem efni standa til við söfnun þeirra og/eða frekari úrvinnslu
  • þær séu nákvæmar og dagréttar
  • að þær séu ekki varðveittar lengur en þarf í ljósi tilgangsins með söfnun þeirra eða frekari úrvinnslu

19.3 Öryggi við úrvinnslu

Grípa skal til fullnægjandi viðeigandi öryggisaðgerða og taka ber tillit til viðkvæmra gagna með það fyrir augum að hindra aðgengi óviðkomandi að þeim eða að birta þær öðrum.

Sé upplýsingum komið áfram til þriðju aðila ætti að ganga úr skugga um að þeir framfylgi að minnsta kosti jafnströngum öryggisaðgerðum.

19.4 Persónulegar upplýsingar barna

Þegar persónulegar upplýsingar eru fengnar frá börnum eða þeim sem ætla má að séu börn ber að veita foreldrum eða forráðamönnum upplýsingar um að friðhelgi barnsins sé að fullu virt, ef mögulegt er.

  • Börn á að hvetja til þess að afla sér leyfis foreldris eða ábyrgs fullorðins einstaklings áður en þau gefa persónuupplýsingar í gagnvirkum rafrænum miðlum og grípa ber til sanngjarnra ráðstafana til að kanna að þannig leyfi hafi verið gefið.
  • Ekki ber að afla frekari persónuupplýsinga en þeirra sem nauðsynlegar eru svo barnið geti tekið þátt í tilgreindri starfsemi. Hafa ætti samband við foreldri eða forráðamann og afla samþykkis þar sem þess er krafist.
  • Ekki ætti að nota gögn sem aflað hefur verið hjá börnum til þess að beina markaðsaðgerðum að foreldum þeirra eða öðrum ættingjum án samþykkis foreldrisins.
  • Það á því aðeins að birta þriðju aðilum persónuupplýsingar um einstaklinga sem vitað er eða gera má ráð fyrir að séu börn að fengist hafi samþykki foreldra eða forráðamanns eða þar sem birtingar er krafist lögum samkvæmt. Með þriðju aðilum er ekki átt við umboðsmenn eða aðra sem veita auglýsingafyrirtækinu tæknilegan eða rekstrarlegan stuðning og sem nota hvorki né birta persónuupplýsingar barna í neinum öðrum tilgangi.
  • Í kafla C, gr. C7, er að finna frekari reglur sem varða sérstaklega markaðsaðgerðir gagnvart börnum með aðstoð gagnvirkra rafrænna miðla.

19.5 Persónuverndarstefna

Þeir sem safna persónuupplýsingum í tengslum við markaðsstarfsemi ættu að setja sér persónuverndarstefnu. Skilmálar hennar ættu að vera neytendum aðgengilegir og þar ætti að vera að finna skýra yfirlýsingu um hvort verið sé að safna einhverjum gögnum eða vinna úr þeim, hvort sem það er augljóst eða ekki.

Um söfnun persónuupplýsinga gilda lög nr. 90/2018 um persónuupplýsingar og meðferð persónuupplýsinga. 

19.6 Réttindi neytandans

Grípa ber til viðeigandi aðgerða til þess að tryggja að neytendur skilji réttindi sín, t.d.:

  • að geta valið um að hafna listum beinnar markaðssetningar
  • að geta valið um að hafna auglýsingum á grundvelli áhugamála
  • að skrá sig í almenna beina forgangsþjónustu
  • að krefjast þess að persónuupplýsingar þeirra séu ekki afhentar þriðju aðilum í markaðslegum tilgangi, og
  • að leiðrétta rangar upplýsingar sem vistaðar eru um viðkomandi

Hafi neytandi ótvírætt óskað eftir því að fá ekki kynningarefni með sérstökum miðli, ber að virða þá ósk.  Grípa skal til viðeigandi ráðstafana til að hjálpa neytendum við að gera sér grein fyrir því að hægt sé að tengja aðgang að efni háð gagnanotkun. Í kafla C, gr. C9, er að finna ítarlegri reglur sem sérstaklega varða notkun á gagnvirkum rafrænum miðlum og réttindi neytenda. 

19.7 Viðskipti yfir landamæri

Sýna skal sérstaka aðgát við að virða persónuverndarréttindi neytandans þegar persónuupplýsingar eru sendar frá því landi sem þeim var safnað til annars lands.

Þegar úrvinnsla gagna fer fram í öðru landi ber að grípa til allra eðlilegra ráða til þess að tryggja að viðeigandi öryggisráðstafanir séu fyrir hendi og að virtar séu meginreglur um persónuvernd eins og þær birtast í þessum siðareglum. Mælt er með því að farið sé að þeim ákvæðum í siðareglunum sem varða samkomulag þess sem safnaði upplýsingunum og þeim sem vinnur úr þeim eða hagnýtir sér þær í öðru landi.

20. GR. – GAGNSÆI VEGNA SAMSKIPTAKOSTNAÐAR

Þegar kostnaður neytenda við að nálgast auglýsingu eða eiga samskipti við markaðsaðilann er hærri en almennur kostnaður við póstburðargjöld eða símtöl, þ.e. að greitt er „hækkað verð“ fyrir skilaboð á Netinu eða í símanúmeri, ber að gera neytendum skýra grein fyrir þessum kostnaði, til dæmis: „kostnaður á mínútu“, „kostnaður fyrir hver skilaboð“,  „kostnaður vegna skilaboða eða gagnaflutnings gæti bæst við“ eða með öðru sambærilegu orðalagi sem viðskiptavinurinn skilur að öllum líkindum. Þegar þessum upplýsingum er komið á framfæri á Netinu, ber að gera neytendum skýra grein fyrir tilteknum gjöldum þegar þeir eru að opna skilaboðin eða Netþjónustuna og gefa þeim sanngjarnan frest til þess að aftengjast án þess að gjald falli á.

Þegar samskiptin fela í sér þannig kostnað ber að forðast að láta neytandann bíða í óeðlilega langan tíma eftir því sem á að felast í samskiptunum og ekki skal byrja að innheimta innhringigjald fyrr en neytandinn byrjar að nýta sér tilboðið.

21. GR. – ÓUMBEÐNAR VÖRUR OG ÓTILGREINDUR KOSTNAÐUR

Forðast ber markaðsskilaboð sem byggjast á því að senda óumbeðnar vörur til neytenda sem síðan eru beðnir um greiðslu (ágengar söluaðferðir), þar með taldar yfirlýsingar eða tillögur sem viðtakendur eru beðnir um að taka við og greiða fyrir.

Þetta ætti að koma ótvírætt fram í markaðsskilaboðum þar sem beðið er um svar sem jafngildir pöntun og sem leiðir til innheimtu á greiðslu (t.d. fyrir skráningu í rit). 

Ekki má leggja fram markaðsskilaboð þannig að hægt sé að ruglast á þeim og reikningi, eða gefa á annan hátt ranglega til kynna á annan hátt að greiðsla sé fallin í gjalddaga.

Í kafla C, gr. C5 er að finna sértækar reglur um að virða óskir viðskiptavina.

22. GR. – UMHVERFI OG ATFERLI

Markaðsskilaboð eiga ekki að virðast leggja blessun sína yfir eða hvetja til aðgerða sem ganga gegn lögum, sjálfstæðum siðareglum eða almennt viðurkenndum stöðlum um ábyrgt atferli gagnvart umhverfinu. Þeim ber að byggjast á þeim meginreglum sem fram koma í kafla D, Fullyrðingar um umhverfismál í markaðsskilaboðum.

23. GR. – ÁBYRGÐ

Þessar almennu reglur um ábyrgð eru tæknilega hlutlausar og ná til hvers kyns markaðsskilaboða. Finna má um reglur um ábyrgð, sem sérstaklega snerta ákveðna starfsemi eða miðla, í þeim köflum sem fjalla um þannig starfsemi og miðla.

Seljendur bera yfirskipaða ábyrgð á öllum markaðsskilaboðum vegna vöru sinnar.

Aðrir þátttakendur á sviði markaðsmála, svo sem markaðsáhrifavaldar, bloggarar, myndbloggarar, hlutdeildarsamstarfsnet, gagnagreiningarfyrirtæki og auglýsingatæknifyrirtæki, auk þeirra sem bera ábyrgð á mótun algríms til markaðsskilaboða og notkun gervigreindar í markaðslegum tilgangi, bera einnig ábyrgð á því að starfa samkvæmt siðareglunum.

Auglýsingastofur og aðrir auglýsingagerðarmenn ættu að sýna viðeigandi varúð og kostgæfni við gerð markaðsskilaboða og ættu að vinna með það fyrir augum að gefa seljendum færi á að standa við ábyrgð sína.

Útgefendur, eigendur miðla eða viðsemjendur, sem gefa út, miðla eða dreifa markaðsskilaboðum ættu að sýna viðeigandi aðgát þegar þeir taka við þeim og miðla þeim til almennings.

Einstaklingar ráðnir af fyrirtæki, félagi eða stofnun sem fellur undir einhvern ofangreindra flokka og taka þátt í því að skipuleggja markaðsskilaboð, búa þau til, gefa út eða dreifa, bera á því ábyrgð í samræmi við stöðu sína að tryggja að farið sé eftir siðareglum þessum og eiga að starfa í samræmi við það.

Engu skiptir hvert eðli starfseminnar, miðilsins eða tækninnar er, allir aðilar deila ábyrgðinni í réttu hlutfalli við hlutverk hvers og eins í ferlinu og innan marka starfssviðs hvers og eins þeirra.

Siðareglurnar eiga við markaðsskilaboð og form þeirra í heild sinni, þar með talin meðmæli og yfirlýsingar og hljóð- og myndefni sem á uppruna sinn annars staðar.  Jafnvel þótt innihald og form markaðsskilaboða sé upprunnið að öllu leyti eða að hluta til frá öðrum aðilum, réttlætir það ekki að siðareglur þessar séu sniðgengnar.

24. GR. – ÁHRIF EFTIRFARANDI ÚRBÓTA VEGNA BROTS

Æskilegt er að ábyrgi aðilinn leiðrétti brot gegn siðareglunum og/eða bæti fyrir það á viðeigandi hátt en það afsakar ekki brotið.

25. GR. – SIÐANEFND SÍA

Hlutverk og skipan siðanefndar SÍA

25.1 Verkefni siðanefndar SÍA er að leysa úr kærum vegna meintra brot á siðareglum SÍA eða veita álit við beiðnum um túlkun á siðareglunum. Nefndin tekur ekki fyrir kæru eða kæruefni vegna brota á öðrum reglum en þeim sem fjallað er um í siðareglunum.

25.2 Siðanefndin skal skipuð þremur fulltrúum frá SÍA (formaður nefndarinnar kemur úr þessum hópi og hefur atkvæði hans tvöfalt vægi ef atkvæði standa jöfn) og öðrum þremur sem sérstaka þekkingu hafa á markaðs-, kynningar- og samskiptamálum, þ. á m. fulltrúa frá ÍMARK. Siðanefndin velur sér ritara nefndarinnar.

25.3 Fulltrúarnir skulu valdir með það fyrir augum að þeir búi yfir þekkingu á siðareglum SÍA og sérfræðiþekkingu á sjálfseftirliti og markaðssiðferði almennt séð. Fastafulltrúar í siðanefndinni skulu útnefndir til að hámarki þriggja ára (með möguleika á endurnýjun). Allir fulltrúar í siðanefndinni (og jafnmargir varamenn) skulu kjörnir á aðalfundi samtakanna á grundvelli tillögu siðanefndarinnar.

Málsmeðferð

25.4 Siðanefndinni ber að rannsaka þær kærur sem henni berast og verða við beiðnum um túlkun. Úrskurðir nefndarinnar skulu rökstuddir og tilgreindar þær greinar siðareglnanna og/eða sá almenni andi reglnanna sem málið varðar. Úrskurður siðanefndar SÍA er ekki bindandi fyrir málsaðila en ætlast er til að hinn kærði verði við þeim tilmælum sem fram koma í úrskurði nefndarinnar.

25.5 Nefndin skilar úrskurðum sínum til málsaðila og birtir hann opinberlega á vefsvæði SÍA. 

25.6 Öllum fyrirtækjum, félögum, atvinnufyrirtækjum, samtökum, dómstólum, opinberum aðilum eða einstaklingum er heimilt að leggja fram kæru eða beiðni um túlkun til siðanefndarinnar.

25.7 Kvörtun/beiðni um túlkun skal lögð fram á skriflegu formi. Í kvörtun/beiðni skal koma fram hvaða auglýsingu um ræðir og þau ákvæði sem koma til skoðunar. Nefndin er þó ekki bundin af þeim ákvæðum sem nefnd eru í kvörtun ef hún telur önnur ákvæði koma til skoðunar.

25.8 Kærandi skal leggja fram afrit eða eintak af þeirri auglýsingu sem kæra hans tekur til.

25.9 Helsta markmið nefndarinnar er að leysa úr kærum/beiðnum um túlkun til nefndarinnar með vönduðum hætti. Nefndin skal hraða málsmeðferð eins og kostur er. Nefndinni er heimilt að kalla eftir gögnum frá málsaðilum. Nefndin skal kappkosta við að rannsaka mál vegna kvörtunar áður en úrskurður liggur fyrir. Þá skal málsaðilum veittur frestur til að koma með athugasemdir, kvartanda í eitt skipti til viðbótar við kvörtun og þeim er kvörtun lýtur að í tvö skipti. Nefndinni er heimilt að kalla eftir munnlegum flutningi mála fyrir nefndinni.

25.10 Sé þörf á sérfræðiþekkingu í kærumáli má kalla til allt að þrjá sérfræðifulltrúa eftir því sem þörf krefur.

25.11 Nefndin getur setið fundi saman eða átt samskipti með öðrum hætti. Formaður ráðgast við aðra nefndarmenn um hvernig starfinu skuli háttað. Nefndarmönnum ber að bregðast við uppköstum og öðrum vinnuskjölum innan þess frests sem formaðurinn setur þeim.

25.12 Nefndin vinnur með það fyrir augum að ná samkomulagi allra fulltrúa um skoðun sína. Náist ekki samkomulag skal meirihluti kosningu ráða þar sem formaðurinn hefur úrslita atkvæði.

Nefndinni er heimilt að kalla eftir munnlegum flutningi mála fyrir nefndinni.

Hagsmunaárekstrar

25.13 Nefndarmenn sem tengjast beiðanda eða eiga hagsmuna að gæta í því málefni sem til umfjöllunar er mega ekki taka þátt í umfjöllun nefndarinnar. Þá skal kalla til óháðan varamann nefndarinnar.

Nefndin vinnur með það fyrir augum að ná samkomulagi allra fulltrúa um skoðun sína. Náist ekki samkomulag skal meirihluti kosnngu ráða þar sem formaðurinn hefur úrslita atkvæði.

Trúnaður

25.14 Umræður nefndarinnar skulu vera trúnaðarmál. Einungis nefndarmenn og ritari hafa aðgang að innanhússskjölum nefndarinnar.

Gjöld og kostnaður

25.15 Ekkert gjald er tekið fyrir kærur til nefndarinnar. Þegar búist er við því að kvörtun/beiðni feli í sér aukakostnað getur formaður stjórnar siðanefndarinnar farið þess á leit að kærandi greiði kostnað af slíku. Ef þörf verður fyrir sérfræðiráðgjöf getur formaður nefndarinnar óskað eftir því að kærandi standi straum af þeim kostnaði sem þannig myndast. Séu gjöldin ekki greidd verður kvörtun/beiðni um túlkun ekki tekin til umfjöllunar.

26. GR. – AÐ VIRÐA ÁKVARÐANIR TEKNAR Á GRUNDVELLI SJÁLFSEFTIRLITS

Enginn seljandi, auglýsingagerðarfólk eða auglýsingastofa, útgefandi, eigandi miðils eða viðsemjandi ætti að taka þátt í útgáfu eða dreifingu á auglýsingu eða öðrum markaðsskilaboðum sem siðanefnd SÍA hefur metið svo að séu óviðunandi.

Allir málsaðilar eru hvattir til þess að fella yfirlýsingu inn í samninga sína og annað það samkomulag sem varðar auglýsingar og önnur markaðsskilaboð um að þeir skuldbindi sig til þess að fara eftir siðareglum SÍA og að virði úrskurði sem siðanefnd SÍA hefur kveðið upp.

2. HLUTI

KAFLI A: SÖLUKYNNING

Þennan kafla ber að lesa í tengslum við Almenn ákvæði og skilgreiningar um auglýsingar og markaðsskilaboð.

Umfang kafla A

Í þessum kafla er fjallað um markaðsáætlanir og tækni sem beitt er til þess að gera vöru meira aðlaðandi með því að bæta við einhvers konar kaupauka, hvort sem hann er í reiðufé eða í fríðu, eða væntingum um þess háttar kaupauka. Þessi kafli á við burtséð frá dreifingaraðferð eða miðli, þar með taldir rafrænir (t.d. vefsetur) og hljóð- og myndmiðlar. Hann á einnig við um útsölur og viðskiptahvetjandi kynningar, auk kynningartilboða í bæði ritstjórnarefni og hljóð- og myndmiðlum.

Kynningar eru að jafnaði tímabundin starfsemi en kaflinn á einnig við um kynningaraðferðir sem beitt er til lengri tíma litið eða stöðugt.

Í kaflanum er fjallað um allar gerðir sölukynninga, þar með talið:

  • allar gerðir umbunartilboða
  • lækkað verð og ókeypis tilboð
  • dreifingu hvers kyns afsláttar-, úttektar- og tilboðsmiða og sýnishorna
  • kynningar tengdar góðgerðarstarfsemi
  • verðlaunakynningar af öllu tagi, þar með taldar hvataáætlanir
  • kynningarefni notað í tengslum við önnur markaðsskilaboð, svo sem bein markaðssetning eða kostun

Í þessum kafla er ekki fjallað um venjubundna dreifingu fæðubótarefna eða fylgihluta sem ekki varða kynningarstarfsemi.

Hugtök sem sérstaklega varða sölukynningar

Eftirfarandi skilgreiningar eiga sérstaklega við um þennan kafla og þær ber að lesa í samhengi við almennar skilgreiningar eins og þær eru settar fram í almennum ákvæðum:

  • hugtakið „kaupauki“ vísar til alls varnings eða þjónustu (eða blöndu þessa) sem boðin er með kynningu í huga.
  • hugtakið „neytandi“ vísar til hvers þess einstaklings, fyrirtækis eða stofnunar sem sölukynningu er beint að eða sem nýtur góðs af henni, annað hvort fjárhagslega eða í fríðu. Hugtakið „verðlaunakynning“ vísar til hvers konar hæfileikakeppna eða útdráttar verðlauna í tengslum við sölukynningarstörf.
  • hugtakið „milligöngumaður“ vísar til hvers þess einstaklings, fyrirtækis eða stofnunar, annarrar en kynningaraðila, sem tekur þátt í framkvæmd hvers kyns sölukynningar.
  • hugtakið „aðalvara“ vísar til varnings eða þjónustu (eða blöndu þessa) sem kynnt er.
  • hugtakið „auglýsandi“ vísar til þess einstaklings, fyrirtækis eða stofnunar sem stendur fyrir kynningunni eða sem lætur kynna í sínu nafni.

Það ræðst af kringumstæðum en hvaða framleiðandi sem er, heildsali eða annar einstaklingur í markaðsferlinu, getur verið auglýsandi, milligöngumaður og/eða rétthafi í tengslum við tilgreinda sölukynningu.

A1 – MEGINREGLUR ER VARÐA SÖLUKYNNINGAR

  • Í öllum sölukynningum skal komið fram við neytendur af sanngirni og heiðarleika.
  • Allar sölukynningar eiga að vera þannig skipulagðar og framkvæmdar að þær uppfylli sanngjarnar væntingar neytenda vegna auglýsinga eða kynninga.
  • Öll framkvæmd sölukynninga og viðbrögð í því skyni að uppfylla allar skyldur sem af þeim rísa eiga að vera hröð og skilvirk.
  • Hugtök og framkvæmd allra sölukynninga ættu að vera gagnsæjar öllum þátttakendum.
  • Allar sölukynningar ber að setja þannig upp að þær séu sanngjarnar gagnvart keppinautum og öðrum seljendum á markaði.
  • Auglýsendur, milligöngumenn og aðrir málsaðilar ættu ekki að gera neitt það sem líklegt er til þess að koma óorði á sölukynningar.

A2 – TILBOÐSSKILMÁLAR

Standa ætti þannig að sölukynningum að þær geri neytandanum kleift að gera sér auðveldlega og skýrt grein fyrir skilmálum tilboðsins. Þess ber að gæta að ýkja hvorki verðmæti kaupaukans né leyna eða dylja verð aðalvörunnar.

A3 – KYNNING

Ekki skal standa þannig að sölukynningu að líklegt sé að það villi um fyrir þeim sem henni er beint að hvað varðar verðmæti vörunnar, eðli eða efni. Öll auglýsingastarfsemi sem varðar sölukynninguna, þar með talin starfsemi á sölustað, á að vera í fullu samræmi við almenn ákvæði siðareglna þessara.

A4 – UMSJÓN KYNNINGARSTARFSEMI

Standa ber að sölukynningum með fullnægjandi bolmagni og eftirliti, eftir því sem þörf er talin á, þar með taldar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að umsjón með tilboðinu sé í samræmi við eðlilegar væntingar neytandans. 

Einkum þó hvað eftirfarandi varðar:

  • Nægar birgðir þurfa að vera af kaupaukanum til þess að uppfylla þá eftirspurn sem búast má við samkvæmt skýrum skilmálum tilboðsins. Sé seinkun óhjákvæmileg ber að tilkynna neytendum það tafarlaust og grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að haga kynningu tilboðsins í samræmi við það. Þegar kaup eða kaupáskrift eru forsenda þess að fá í hendur kaupauka ættu kynningaraðilar að tryggja að nægt framboð sé af umræddum kaupauka í samræmi við fjölda viðskipta sem gerð eru.
  • Skipta ber gölluðum vörum og bæta ófullnægjandi þjónustu eða að bæta það fjárhagslega á viðeigandi hátt. Bæta ber neytendum umsvifalaust eftir beiðni hvern þann kostnað sem leiðir beint af öllum þannig annmörkum.
  • Kvartanir skulu afgreiddar á skilvirkan og viðeigandi hátt.

A5 – ÖRYGGI OG HEPPILEIKI

Þess ber að gæta að tryggt sé að kaupauki valdi hvorki neytanda, milligöngumönnum né neinum öðrum tjóni eða hættu, að því gefnu að hann sé notaður á réttan hátt.

Kynningaraðilar ættu að tryggja að kynningarstarfsemi þeirra sé í samræmi við meginreglur félagslegrar ábyrgðar samkvæmt almennu ákvæðunum, og einkum að grípa til sanngjarnra ráðstafana til að hindra að börn fái óheppilegt eða óviðeigandi efni í hendur.

A6 – UPPLÝSINGAR TIL NEYTENDA

Forðast ber flóknar reglur. Reglur ætti að birta á tungumáli sem neytendur eiga auðvelt með að skilja. Ekki ætti að ýkja möguleikann á því að vinna verðlaun.

Kröfur til upplýsinga

Standa ber að sölukynningum á þann veg að tryggt sé að neytendum sé gerð grein fyrir öllum kringumstæðum sem gætu haft áhrif á kaupákvörðun þeirra áður en viðskiptin eiga sér stað.

Upplýsingarnar ættu að fela í sér, þar sem það á við:

  • skýrar leiðbeiningar um hvernig eigi að ná í eða taka þátt í kynningartilboðinu, t.d. skilyrði þess að njóta kaupauka, eða að taka þátt í verðlaunakynningum
  • helstu einkenni þess kaupauka sem í boði er
  • allar tímatakmarkanir þess að nýta sér kynningartilboðið
  • allar takmarkanir á þátttöku (t.d. landfræðilegar eða aldurstengdar), framboð á kaupauka eða aðrar takmarkanir vegna birgðahalds. Sé um takmarkað framboð að ræða, ber að tilkynna rétthöfum á fullnægjandi hátt um allt það sem gert er til þess að bjóða annað í staðinn eða um endurgreiðslu
  • verðmæti allra tilboðs- eða afsláttarmiða sem í boði er, sé um gjaldgengan annan kost að ræða
  • allan kostnað við viðskiptin, þar með talinn pökkunar- og sendingarkostnaður auk greiðsluskilmála
  • fullt nafn og heimilisfang auglýsanda og póstfang þangað sem senda má kvartanir (sé það annað en heimilisfang auglýsanda)

Kynningar sem lýsa stuðningi við góðgerðarmál ættu ekki að ýkja framlagið sem kynningin skilar. Upplýsa þarf neytendur um það hve mikill hluti verðsins rennur til málstaðarins áður en kaupin eiga sér stað.

Upplýsingar um verðlaunakynningar

Þegar sölukynning felur í sér verðlaunakynningu ætti að gefa neytendum eftirfarandi upplýsingar, eða leggja þær að minnsta kosti fram samkvæmt beiðni, áður en þátttaka hefst og ekki þannig að það sé háð kaupum á hinni auglýstu vöru:

  • allar reglur sem varða þátttökurétt í verðlaunakynningunni
  • allan kostnað vegna þátttökunnar annan en kostnað við samskipti sem er á venjulegu gjaldi eða lægra verði (um síma, póst o.s.frv.)
  • allar takmarkanir á fjölda svara
  • fjölda, verðmæti og eðli þeirra verðlauna sem úthlutað verður og hvort hægt sé að velja reiðufé í stað verðlaunagripa
  • sé um að ræða keppni í færni eða þekkingu ber að kynna eðli keppninnar og þau viðmið sem lögð eru til grundvallar við mat á svörunum
  • hvernig val til verðlauna fer fram
  • hvenær samkeppninni lýkur
  • hvenær og hvernig niðurstöður verða kynntar
  • hvort rétthafi þurfi að greiða skatta af þeim verðlaunum sem hann vinnur
  • það tímabil sem hægt er að sækja vinninga
  • hvernig dómnefnd er skipuð, sé um hana að ræða
  • öll áform um að hagnýta sigurvegara eða vinningstillögur í starfsemi að kynningu lokinni og skilmála um þannig hagnýtingu

A7 – KYNNING GAGNVART MILLIGÖNGUMÖNNUM

Upplýsingar fyrir milligöngumenn

Sölukynningar ber að setja þannig fram fyrir milligöngumönnum að þeir geti metið þá þjónustu og framlag sem vænst er af þeim. Einkum ætti að gefa ýtarlegar upplýsingar um:

  • skipulag og umfang kynningarinnar, þar með taldar tímasetningar og öll tímatakmörk
  • hvernig kynningin verður lögð fram gagnvart starfsgreininni og almenningi
  • skilmála fyrir þátttöku
  • fjárhagslegar afleiðingar fyrir milligöngumenn
  • öll sérstök stjórnunarleg verkefni sem krafist er af milligöngumönnum

Upplýsingar á ytri umbúðum

Á ytri umbúðum varnings sem auglýsir kynningartilboð ættu, eftir því sem við á, að koma fram viðeigandi upplýsingar fyrir milligöngumenn á borð við lokadagsetningu og tímatakmörk, þannig að þeir geti sinnt nauðsynlegu eftirliti með birgðahaldi.

A8 – SÉRSTAKAR SKYLDUR AUGLÝSENDA

Hagsmunir milligöngumanna

Sölukynningar ber að móta og að stjórna þeim með eðlilegri hliðsjón af lögmætum hagsmunum milligöngumanna og að teknu tilliti til frelsis þeirra til að ákveða sig.

Hagsmunir starfsmanna, atvinnurekanda og tengsl við neytendur

Skilmála sölukynninga ber að móta þannig að virt séu tryggðatengsl starfsmanna og vinnuveitenda þeirra.

Móta ber kynningar og hvatningaráætlanir og hrinda þeim í framkvæmd þannig að tekið sé tillit til hagsmuna allra sem málið varða og þannig að þær stangist ekki á við skyldur starfsmanna við vinnuveitendur sína eða þá skuldbindingu að gefa neytendum heiðarleg ráð.

Réttindi starfsmanna milligöngumanna

Alltaf ætti að leita fyrir fram samþykkis milligöngumanns eða ábyrgs stjórnanda á hans/hennar vegum ef áformuð kynning felur í sér:

  • að bjóða starfsmönnum milligöngumannsins að aðstoða við kynningarstarfsemi af einhverju tagi
  • að bjóða einhvers konar hvatningu eða verðlaun, fjárhagsleg eða önnur, þessum starfsmönnum fyrir aðstoð þeirra eða fyrir hvers kyns árangur í sölu í tengslum við sölukynninguna

Sé um að ræða tilboð sem kynnt er opinberlega í almennum miðlum og sem ekki er hægt að útvega leyfi fyrir fram, ber að gera starfsfólki ljóst að það verði að afla sér leyfis vinnuveitanda áður en það tekur þátt í verkefninu.

Að afhenda milligöngumönnum vörur og efni í tíma

Afhenda ber allar vörur, þar með talda kaupauka og annað efni sem máli skiptir, milligöngumanni á þeim tíma sem sanngjarn má teljast hvað varðar öll tímatakmörk sem varðar kynningartilboðið.

Samningsbundin tengsl milligöngumanna og neytenda

Ef sölukynningar fela í sér virkt samstarf milligöngumanns og starfsfólks hans/hennar ber að búa svo um hnútana að það skaði ekki nein samningsbundin tengsl sem gætu verið fyrir hendi á milli milligöngumanns og neytenda.

A9 – SÉRSTAKAR SKYLDUR MILLIGÖNGUMANNA

Heiðarleiki

Hafi milligöngumaður samþykkt að standa að sölukynningum ber honum/henni að annast þær á sanngjarnan og heiðarlegan hátt og gæta þess að hann/hún eða starfsfólk hans/hennar sinni þeim á viðeigandi hátt.

Rangfærslur

Ef sölukynningar fela í sér einhverja tiltekna ábyrgð milligöngumanns, ber honum/henni að annast það þannig að sem minnst hætta sé á því að misskilningur rísi vegna skilmála, verðmætis, takmarkana eða framboðs á tilboðinu.

Einkum ber milligöngumanni að framfylgja áætlun og skilmálum kynningarinnar eins og auglýsandinn leggur hana fram. Milligöngumaður ætti ekki að gera neinar breytingar á því skipulagi sem samþykkt hefur verið, t.d. breytingar á tímasetningum, án þess að auglýsandinn hafi samþykkt þær.

A10 – ÁBYRGÐ

Auglýsandinn ber ábyrgð á því að farið sé eftir siðareglunum en hann ber endanlega ábyrgð á öllum þáttum sölukynninga, burtséð frá því hvert eðli þeirra eða innihald er.

Hver sá sem tekur þátt í að skipuleggja, skapa eða framkvæma hvers kyns sölukynningu ber ábyrgð um að tryggja að farið sé að siðareglunum gagnvart milligöngumönnum, rétthöfum og öðrum þeim aðilum sem kynningin varðar eða gæti varðað.

KAFLI B: KOSTUN

Þennan kafla ber að lesa í tengslum við Almenn ákvæði og skilgreiningar um auglýsingar og markaðsskilaboð.

Umfang kafla B

Þessi kafli varðar kostun í öllum þeim myndum sem varða ímynd fyrirtækja, vöruheiti, varning, starfsemi eða viðburði af hvaða tagi sem er. Þar er með talin kostun allra samtaka, hvort sem þær stunda viðskipti eða ekki, þar með talin þættir kostunar sem eru hluti annarrar markaðsstarfsemi, t.d. sölukynning eða bein markaðssetning. Reglurnar gilda einnig um hvers konar kostun vegna áætlana fyrirtækja sem varða félagslega ábyrgð. Starfsemi á vegum kostanda ætti að fara að meginreglum kaflans, að því marki sem mögulegt er.

Kaflinn á ekki við um staðsetningu varnings, eða fjármögnun án fjárhagslegs eða samskiptalegs grundvallar, til dæmis gjafir eða stuðning, nema þar sem um kostunarþátt er að ræða.

Hugtök sem sérstaklega varða kostun

Eftirfarandi skilgreiningar eiga sérstaklega við um þennan kafla og þær ber að lesa í samhengi við almennar skilgreiningar eins og þær eru settar fram í almennum ákvæðum:

  • hugtakið „markhópur“ vísar til almennings, einstaklinga eða samtaka sem kostunaratriðinu er beint að.
  • hugtakið „gjafir og stuðningur“ vísar til þess forms fórnfýsi þar sem peningar eða vörur eru gefnar með litlum eða engum hagnaði, viðurkenningu eða viðskiptalegum hagnaði.
  • hugtakið „kostun miðla“vísar til kostunar á eign miðla (t.d. sjónvarps- eða útvarpssendingu, útgefið efni, kvikmynd, internet, farsíma eða aðra fjarskiptatækni).
  • hugtakið „vörustaðsetning“ vísar til þess að notast við vöru þannig að hún komi fram í sjónvarpsþætti, kvikmynd eða útgefnu efni, að jafnaði gegn greiðslu eða afhendingu annarra verðmæta til framleiðanda þáttarins eða kvikmyndarinnar, útgefanda eða leyfishafa.
  • hugtakið „kostandi“ vísar til allra fyrirtækja eða lögpersóna sem leggja fram fjárhagslegan stuðning eða annars konar kostun.
  • hugtakið „starfsemi á vegum kostanda“ vísar til eignar sem virðist vera kostun en þar sem kostandi og kostunarverkefnið er eitt og hið sama, til dæmis atburður sem mótaður er af fyrirtæki/félagi og er í eigu þess en sem það vill líka að fram komi að það kosti atburðinn.
  • hugtakið „kostun“ vísar til hvers kyns viðskiptalegs samkomulags þar sem kostandi veitir, í hagsmunaskyni fyrir bæði kostanda og kostunarverkefnið er og í samræmi við samning, fjármögnun eða annan stuðning með það fyrir augum að koma á tengslum við ímynd kostanda, vöruheiti eða vörur og kostunaratriði, gegn rétti til þess að kynna félag sitt og/eða heimild fyrir ákveðnum samþykktum beinum eða óbeinum hlunnindum.
  • hugtakið „kostunarverkefni“ vísar til hvers þess einstaklings eða annarrar lögpersónu sem á viðeigandi réttindi kostunaratriðsins og fær beinan eða óbeinan stuðning frá kostanda í tengslum við kostunaratriðið.
  • hugtakið „kostunaratriði“ vísar til atburðar, starfsemi, félags, einstaklings, miðils eða staðsetningar.

B1 – MEGINREGLUR UM KOSTUN

Öll kostun ætti að byggjast á samningsbundnum skilmálum kostanda og kostunarverkefnis. Kostendur og kostunarverkefni ættu að setja fram skýra skilmála og skilyrði gagnvart öllum þeim sem málið varðar til þess að skilgreina væntingar sínar um alla þætti kostunarsamningsins.

Hægt þarf að vera að bera kennsl á kostun sem slíka.

Skilmálar og framkvæmd kostunar ættu að byggjast á þeirri meginreglu að allir aðilar kostunarinnar séu í góðri trú.

Enginn vafi má leika á því hvaða sértæku réttindi eru seld og fyrir hendi skal vera staðfesting rétthafans á því að þau séu í boði til kostunar. Kostunarverkefni ættu að hafa óskorðaðan rétt til þess að ákveða verðmæti kostunarréttinda þeirra sem í boði eru og að sá kostandi sé viðeigandi sem samið er við.

B2 – SJÁLFSFORRÆÐI OG SJÁLFSÁKVÖRÐUNARRÉTTUR

Kostun ætti að sýna sjálfsforræði og sjálfsákvörðunarrétti kostunarverkefnisins fulla virðingu hvað varðar stjórn þess á eigin starfsemi og eignum, að því gefnu að kostunarverkefnið uppfylli þau markmið sem lögð voru fram í kostunarsamningi.

B3 – EFTIRLÍKINGAR OG RUGLINGUR

Kostendur og kostunarverkefni ættu, ásamt öðrum þeim sem taka þátt í kostun, að forðast eftirlíkingar af kynningu í annarri kostun þar sem þannig eftirlíkingar gætu villt um fyrir fólki og orsakað rugling, jafnvel þótt um sé að ræða vörur, fyrirtæki eða atburði sem ekki eru í samkeppni við verkefnið.

B4 – „YFIRTAKA“ KOSTUNARATRIÐA

Enginn má leitast við að gefa til kynna að kosta ákveðinn atburð eða umfjöllun um atburð í miðlum, hvort sem um er að ræða kostaðan atburð eða ekki, sé viðkomandi í raun ekki opinber kostandi verkefnisins eða umfjöllunarinnar.

Bæði kostandi og kostunarverkefni ættu að gæta þess að tryggja að allar aðgerðir þeirra í því skyni að verjast yfirtöku kostunaratriða séu í réttu hlutfalli við aðstæður og að þau skaði hvorki orðspor kostunaratriðisins né hafi óviðeigandi áhrif á almenning.

B5 – VIRÐING FYRIR KOSTUNARVERKEFNI OG KOSTANDA

Kostendum ber að gæta sérstaklega að því að verja allt listrænt, menningarlegt eða íþróttatengt eða annað innihald kostunarverkefnis og að forðast alla misnotkun á stöðu þess sem gæti skaðað samsemd kostunarverkefnisins eða kostunaratriðisins, reisn þess eða virðingu.

Kostunarverkefnið á hvorki að dylja, umbreyta né vanvirða ímynd eða vörumerki kostanda eða tefla almennri velvild hans eða virðingu því tengt í tvísýnu.

B6 – MARKHÓPUR KOSTUNAR

Tilkynna þarf markhópnum á greinilegan hátt um að kostun sé til staðar hvað varðar ákveðinn atburð, starfsemi, dagskrá eða einstakling og skilaboð kostandans ættu ekki að misbjóða neinum. Taka ber eðlilegt tillit til faglegra siðareglna kostunarverkefnisins.

Þessari grein er þó hvorki ætlað að draga úr áhuga á kostun á framsækinni og mögulega umdeildri listrænni/menningarlegri starfsemi né að hvetja kostendur til þess að beita ritskoðun á skilaboð kostunarverkefnis.

B7 – AÐ SAFNA GÖGNUM OG DEILA ÞEIM

Séu persónuupplýsingar notaðar í tengslum við kostun á 19. gr. almennra ákvæða við um þær.

B8 – LISTRÆN OG SÖGULEG VERKEFNI

Ekki ætti að standa þannig að kostun að það stefni listrænum eða sögulegum hlutum í hættu.

Sé kostun ætlað að verja, endurreisa eða viðhalda menningarlegum, listrænum eða sögulegum eiginleikum eða miðla þeim, ber henni að virða þann almenna áhuga sem tengist þeim.

B9 – FÉLAGLEG OG UMHVERFISLEG KOSTUN

Bæði kostendur og kostunarverkefni eiga að taka tillit til mögulegra félagslegra eða umhverfislegra áhrifa kostunarinnar við undirbúning, skipulag og framkvæmd kostunarinnar.

Færa ber rök fyrir öllum þeim kostum sem sagðir eru felast í þeim kostunarskilaboðum sem að öllu leyti eða að hluta til byggjast á jákvæðum félagslegum og /eða umhverfislegum áhrifum (eða skerðingu neikvæðra áhrifa).

Allar yfirlýsingar um umhverfismál vegna kostunar ættu að vera í samræmi við þær meginreglur sem lagðar eru fram í kafla D, Umhverfisyfirlýsingar í markaðsskilaboðum.

B10 – GÓÐGERÐARSTARFSEMI OG KOSTUN MANNÚÐARMÁLA

Annast ber kostun góðgerðar- og mannúðarmála af nærgætni og vandvirkni til þess að tryggja að hún hafi ekki neikvæð áhrif á starfsemi kostunarverkefnisins.

B11 – SAMEIGINLEG KOSTUNARVERKEFNI

Þegar starfsemi eða atburður kallar á eða heimilar marga kostendur ætti hver einasti samningur og samkomulag að skilgreina ítarlega réttindi, takmarkanir og skyldur hvers kostanda fyrir sig, þar með talin en þó ekki takmarkað við ýtarlega lýsingu á öllum einkaréttindum.

Sérhver aðili í hópi kostenda ætti einkum að leggja áherslu á að virða skilgreind kostunarsvið og þau kynningarverkefni sem hverjum og einum hefur verið úthlutað til þess að forðast allar truflanir sem gætu truflað jafnvægið á milli framlags hvers kostanda á ósanngjarnan hátt.

Kostunarverkefnið ætti að tilkynna öllum þeim kostendum sem til greina koma um alla þá kostendur sem þegar taka þátt í kostuninni. Kostunarverkefnið ætti ekki að samþykkja nýjan kostanda án þess að ganga fyrst úr skugga um að það stangist ekki á við réttindi annarra kostenda sem þegar hefur verið samið við og að tilkynna það kostendum, eftir því sem við á.

B12 – KOSTUN MIÐLA

Kostandi ætti ekki að hafa óeðlilega mikil afskipti af innihaldi og tímasetningu kostaðra atriða í miðlum svo það skaði hvorki ábyrgð, sjálfsforræði né ritstjórnarlegt sjálfstæði þess sem útvarpar, framleiðanda þáttarins eða eiganda miðilsins, nema að því marki sem viðeigandi löggjöf heimilar kostanda að vera framleiðandi eða meðframleiðandi dagskrárliðar, eigandi miðils eða fjármögnunaraðili.

Skilgreina ber kostunarverkefnið í miðlum sem slíkt með því að kynna nafn og/eða myndmerki kostanda í upphafi, á meðan á dagskrárliðnum stendur og/eða í lok hans. Þetta á einnig við um efni á netinu.

Sérstaklega ber að gæta að því að tryggja að enginn vafi leiki á því hver kostar viðburð eða starfsemi og hver kostar sendinguna í miðli, einkum þegar um mismunandi kostendur er að ræða.

B13 – ÁBYRGÐ

Kostun byggist á samningi um gagnkvæman ávinning og því hvílir sú skylda að fara að siðareglunum á herðum bæði kostanda og kostunarverkefnis en þeir deila endanlegri ábyrgð á öllum þáttum kostunarinnar, hvert sem eðli hennar eða innihald er. Hver sá sem tekur þátt í að skipuleggja, skapa eða framkvæma hvers kyns sölukynningu ber ábyrgð, eins og hún er skilgreind í 23. grein almennra ákvæða, á því að tryggja að farið sé að siðareglunum gagnvart þeim aðilum sem kynningin varðar eða gæti varðað.

KAFLI C: MARKAÐSSKILABOÐ VIÐ BEINA OG STAFRÆNA MARKAÐSSETNINGU

Þennan kafla ber að lesa í tengslum við Almenn ákvæði og skilgreiningar um auglýsingar og markaðsskilaboð.

Umfang kafla C

Sé ekki annað tekið fram á þessi kafli við um alla aðila að beinni og stafrænni markaðsstarfsemi í heild sinni og markaðsskilaboð þeirra, sama hvort þau eru stafræn eða ekki og burtséð frá formi miðli eða innihaldi þeirra. Þar eru settir staðlar um siðferðilega hegðun sem öllum ber að fylgja. 

Þeir eru mótaðir með það fyrir augum að eiga við mörg markaðssvæði og vera tæknilega hlutlausir. Hann ætti að gilda um nýja tækni þegar í boði eru á almennum markaði tæknilega sanngjarnar lausnir sem fyrirtæki gætu hlítt.

Hugtök sem sérstaklega varða markaðsskilaboð við beina og stafræna markaðssetningu:

Nánari skilgreiningar má finna í sértækum greinum þessa kafla um símasölu og persónubundnar auglýsingar (IBA), sjá gr. C21 um sértæk hugtök tengd símasölu og C22 um sértæk hugtök tengd persónubundnum auglýsingum.

  • hugtakið „bein markaðssetning“ eru auglýsinga- eða markaðsskilaboð af öllu tagi frá markaðs- og/eða söluaðila beinnar markaðssetningar eða fyrir hönd hans sem beint er að ákveðnum einstaklingum með því að nota samskiptaupplýsingar þeirra (þ.m.t. póstfang, símanúmer, netfang, farsímanúmer, faxnúmer, notandaheiti á samfélagsmiðlum og þess háttar).
  • hugtakið „stafræn markaðssetning“ vísar til markaðsskilaboða þar sem notaðir eru gagnvirkir stafrænir miðlar að mestu í þeim tilgangi að kynna vörur eða hafa áhrif á atferli neytandans.
  • hugtakið „gagnastjóri“ nær yfir hvern þann einstakling, fyrirtæki eða félag annan en markaðs- og/eða söluaðila, sem veitir auglýsanda þjónustu í formi markaðsskilaboða í beinni eða stafrænni markaðssetningu eða fyrir hönd hans.
  • hugtakið „rétturinn til að hætta við“ vísar til rétt neytandans til að endursenda hvaða vöru sem er til seljanda eða að fella niður pöntun á þjónustu innan ákveðinna tímamarka og þannig að ógilda söluna.

ALMENN ÁKVÆÐI

C1 – AUÐKENNING OG GAGNSÆI

Markaðsskilaboð ætti að auðkenna á fullnægjandi hátt sem slík í samræmi við 7. grein í almennu ákvæðunum. Efnisvísar ættu að vera nákvæmir og viðskiptalegt eðli skilaboðanna neytandanum augljóst.

Hafi markaðs- og/eða söluaðili mótað eða boðið upp á að mæla með eða veita umsögn um vöru ætti viðskiptalegt eðli þess að vera augljóst. Við þær aðstæður ættu meðmæli eða umsögn ekki að fullyrða eða gefa til kynna að það sé frá eða veitt af sjálfstæðum neytanda eða óháðum aðila.

Markaðs- og/eða söluaðilar ættu að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að viðskiptalegt eðli innihalds á síðu samfélagsmiðils eða notandareiknings undir stjórn eða áhrifum markaðs- og/eða söluaðila komi greinilega fram og að farið sé að reglum og stöðlum viðunandi hegðunar í viðskiptum þannig hópa.

Forðast skal hvers konar myndir, hljóð eða texta sem vegna stærðar, umfangs eða annarra sýnilegra eiginleika er líklegt til að draga umtalsvert úr læsi- og skýrleika tilboðsins eða skyggja á það.

C2 – AUÐKENNI MARKAÐS- OG/EÐA SÖLUAÐILA

Auðkenni markaðs- og/eða sölu- og/eða rekstraraðila og upplýsingar um hvar og hvernig hægt sé að hafa samband við þá ætti að koma fram í tilboðinu þannig að neytandinn geti haft beint og skilvirkt samband við viðkomandi. Það sem það er tæknilega mögulegt ættu þessar upplýsingar að vera þannig aðgengilegar að neytandinn geti nálgast þær og geymt, t.d. í sérstöku skjali utankerfis, í skjali á netinu sem hægt er að hlaða niður, netfangi eða SMS eða reikningi sem hægt er að innrita sig á. Upplýsingarnar ættu til dæmis ekki bara að birtast á pöntunareyðublaði sem neytandinn þarf að skila inn. Neytandinn ætti að fá sendar upplýsingar um fullt nafn markaðs- og/eða söluaðila, heimilisfang hans, netfang og símanúmer um leið og varan er afhent.

C3 – TILBOÐIÐ

Skilmála og skilyrði allra tilboða skulu vera augljós bæði neytendum og öðrum málsaðilum.

Uppfylla ber hratt og skilvirkt allar skyldur sem rísa af tilboðinu.

Öll tilboð sem fela í sér kaupauka ætti að setja fram algjörlega samkvæmt reglum í kafla A: Sölukynning.

C4 – KYNNING

Draga ætti saman á einfaldan og greinilegan hátt öll mikilvæg atriði í tilboðinu á einum stað, eftir því sem við á. Mikilvæg atriði í tilboðinu mega vera greinilega endurtekin en ættu ekki að vera á víð og dreif um kynningarefnið.

Þegar kynning á tilboði felur einnig í sér vörur sem ekki eru innifaldar í tilboðinu, eða ef kaupa þarf vörur til viðbótar svo neytandinn geti notað þá vöru sem boðin er, ætti það að koma skýrt fram í tilboðinu.

Alltaf ber að kynna neytendum fyrir fram um þau skref sem leiða til þess að gerð er pöntun, kaup, samningur eða önnur skuldbinding. Sé þess krafist af neytendum að þeir gefi upplýsingar í þessum tilgangi ber að gefa þeim fullnægjandi tækifæri til þess að kanna hvort þeir hafi gefið réttar upplýsingar áður en þeir skuldbinda sig á einhvern hátt.

Markaðs- og/eða söluaðili ætti að bregðast við með því að samþykkja pöntun neytandans eða hafna henni, eftir því sem það á við.

Ekki ætti að notfæra sér hugbúnað og annan tæknibúnað til þess að fela eða dylja einhverja efnislega þætti, t.d. verð og aðra söluskilmála, sem gætu haft áhrif á ákvörðun neytandans. Áður en neytandi skuldbindur sig ætti hann/hún auðveldlega að geta haft aðgang að nauðsynlegum skilaboðum til að skilja rétt eðli vörunnar ásamt verði, sendingarkostnaði og öðrum kostnaði við kaupin.

C5 – MIKILL ÞRÝSTINGUR VIÐ SÖLU

Ekki ætti að beita aðferðum sem einkennast af miklum þrýstingi og sem líta má á sem áreitni. Ekki ætti að biðja neytendur um að skrá sig fyrir tilboði þegar ekki er gefinn neinn kostur á því að staðfesta skilmála og skilyrði.

C6 – AÐ SÝNA OPINBERUM HÓPUM OG UMSAGNARVEFSETRUM VIRÐINGU

Sýna ætti fulla virðingu skilmálum og skilyrðum sérstakra gagnvirkra stafrænna miðla sem gætu hafa sett eigin reglur og staðla um viðeigandi viðskiptalegt framferði, t.d. fréttahópa, umræðuvettvanga, blogg, myndablogg eða tilkynningatöflur og almennan miðlarahugbúnað fyrir breytingar á innihaldi vefsetra (wiki-síður). Markaðsskilaboð sem birt eru á þannig opinberum tjáskiptavettvangi eru því aðeins viðeigandi að umræðuvettvangurinn eða setrið hafi beint eða óbeint gefið til kynna að það vilji taka við þannig skilaboðum.

C7 – MARKAÐSSKILABOÐ OG BÖRN

  • Hvetja ætti foreldra og/eða forráðamenn til að taka þátt í og/eða hafa eftirlit með gagnvirkum athöfnum barna sinna.
  • Persónuupplýsingar um einstaklinga sem vitað er að eru börn ætti því aðeins að birta þriðju aðilum eftir að hafa fengið til þess heimild frá foreldra eða lögráðamanni eða þar sem birting upplýsinganna er fyrirskipuð lögum samkvæmt. Með þriðju aðilum er ekki átt við umboðsmenn eða aðra sem veita vefsetrinu rekstrarlegan stuðning og sem nota hvorki né birta persónuupplýsingar barna í neinum öðrum tilgangi.
  • Grípa ætti til aðgerða á borð við eftirlit með aldri á vefsetrum tileinkuðum vörum sem bundnar eru aldurstakmarki, svo sem áfengum drykkjum, veðmálum og tóbaksvörum til að takmarka aðgengi barna undir lögaldri að þannig vefsetrum.
  • Sé markaðsskilaboðum beint að börnum í ákveðnum aldurshópi ættu þau að vera viðeigandi og við hæfi barna á þeim aldri.

C8 – AÐ VIRÐA ÓSKIR NEYTANDANS

Þegar neytandi gefur til kynna með merkingu í símaskrá eða á einhvern annan hátt, t.d. með límmerki á póstkassa, að hann/hún óski ekki eftir skilaboðum um beina markaðssetningu, ber markaðs- og/eða söluaðilanum að virða það. Þegar markaðs- og/eða söluaðilar beina auglýsingum sínum að alþjóðlegum hópi neytenda ættu þeir, hvar sem þess er kostur, að afla sér viðeigandi upplýsinga um merkingar þess efnis að neytendur á viðkomandi markaðssvæði óski ekki eftir beinni markaðssetningu og að virða það (sjá einnig almenn ákvæði, 19. grein, Persónuvernd og friðhelgi).

Þegar markaðsskilaboð eru send um rafræna miðla ættu þau að fela í sér skýra og gagnsæja leið sem gefur neytandanum færi á að koma því á framfæri að hann vilji ekki fá fleiri slík tilboð í framtíðinni. 

C9 – AÐ VIRÐA NOTKUN NEYTENDA Á GAGNVIRKUM STAFRÆNUM MIÐLUM

Þess skal gætt á fullnægjandi hátt að stafræn markaðsskilaboð og/eða öll forrit sem notuð eru til að gera neytendum kleift að opna önnur markaðsskilaboð eða auglýsingar trufli ekki venjulega notkun neytandans af gagnvirkum stafrænum miðlum eða reynslu af þeim.

C10 – AÐ SÝNA MÖGULEGUM TILFINNINGUM MARKHÓPS Á HEIMSVÍSU VIRÐINGU

Markaðs- og/eða söluaðilar ættu að leggja sig fram um að forðast móðganir með því að virða félagsleg viðmið, staðbundna menningu og hefðir á markaðssvæðum sem markaðsskilaboðum er beint að. Í ljósi þess að rafræn net ná til heimsbyggðarinnar allrar og að mögulegir viðtakendur geta verið af mjög fjölbreyttum toga ættu markaðs- og/eða söluaðilar að grípa til aðgerða til tryggja að markaðsskilaboð þeirra séu í samræmi við meginreglur félagslegrar ábyrgðar eins og henni er lýst í almennu ákvæðunum.

C11 – ÖRYGGI OG HEILBRIGÐI

Markaðs- og/eða söluaðilar ættu að ganga úr skugga um að kaupaukar uppfyllir kröfur samkvæmt grein A5 og að notkun markaðsskilaboða hvetji hvorki né afsaki óábyrgt starfslag sem gæti ógnað öryggi og heilbrigði.

Öllum vörum, þar með talin sýnishorn eftir því sem við á, ætti að pakka inn á viðeigandi hátt til afhendingar neytanda, og til að skila, í samræmi við viðeigandi heilbrigðis- og öryggisstaðla.

C12 – RÉTTUR TIL AÐ RIFTA KAUPUM

Þegar neytendur hafa rétt til þess að rifta kaupunum ber markaðs- og/eða söluaðila að tilkynna þeim að sá réttur sé til staðar, hvernig hægt sé að afla sér frekari upplýsinga um hann og hvernig eigi að nýta sér hann. (Sjá nánar í almennum ákvæðum viðvíkjandi ókeypis reynslutíma).

C13 – ÞJÓNUSTA EFTIR SÖLU

Þegar boðin er þjónusta eftir sölu ættu nánari upplýsingar um þá þjónustu að koma fram í skilmálum af öllu tagi eða annars staðar í tilboðinu. Ef neytandinn samþykkir tilboðið ætti að veita upplýsingar um hvernig virkja eigi þjónustuna og ná sambandi við þann sem veitir þjónustuna.

C14 – VERÐ OG GREIÐSLUSKILMÁLAR

Leggja ber fram allar þær upplýsingar sem neytandinn þarf á að halda til þess að átta sig á kostnaði, vöxtum og öðrum lánaskilmálum, annað hvort með tilboðinu eða þegar lánið er boðið.

Verð og greiðsluskilmálar ættu að koma greinilega fram í tilboðinu, burtséð frá því hvort greitt er fyrir það með staðgreiðslu eða afborgunum, ásamt upplýsingum um forsendur allra viðbótargjalda (á borð við burðargjald, sendingarkostnað, skatta o.s.frv.) og viðkomandi upphæð, sé þess nokkur kostur.

Byggist salan á afborgunum ættu lánaskilmálar að koma greinilega fram í tilboðinu, þar með talin upphæð innborgunar eða greiðslu inn á reikning, upphæð og tíðni afborgana og heildarverð miðað við staðgreiðsluverð, sé um það að ræða.

Halda ber auglýstu verði um eðlilega langan tíma, nema tímasetning tilboðs og verðs komi greinilega fram í tilboðinu.

C15 – VÖRUR SEM EKKI HEFUR VERIÐ BEÐIÐ UM

Ekki ætti að afhenda vörur sem greiðslu er vænst fyrir án þess að pöntun liggi fyrir.

Sjá einnig almenn ákvæði, 21. grein – Óumbeðnar vörur og ótilgreindur kostnaður.

C16 – AGREIÐSLA PANTANA

Pantanir ber að afgreiða innan 30 daga eftir að pöntun frá neytanda hefur borist, nema annað sé tekið fram í tilboðinu. Tilkynna skal neytanda um allar óeðlilegar seinkanir strax og vitneskja liggur fyrir um þær. Þegar það gerist ætti alltaf að samþykkja afpantanir neytanda, jafnvel þótt ekki sé hægt að koma í veg fyrir afhendingu, auk þess sem endurgreiða ber allar inngreiðslur, sé um þær að ræða.

C17 – STAÐGENGILL VÖRU

Verði vara ekki fáanleg af ástæðum sem markaðs- og/eða söluaðilinn eða umsjónarmaðurinn ráða ekki við, má ekki afhenda aðra vöru í hennar stað nema neytandanum sé tilkynnt að um staðgengil vöru sé að ræða og nema sú vara sé jafn góð eða betri hvað varðar efni og einkenni, og að hún sé afhent gegn sama eða lægra verði. Ef það gerist skal útskýrt fyrir neytandanum að um aðra vöru sé að ræða í stað hinnar og að neytandinn hafi rétt á því að skila þeirri vöru á kostnað markaðs- og/eða söluaðilans.

C18 – AÐ SKILA GÖLLUÐUM EÐA SKEMMDUM VÖRUM

Markaðs- og/eða söluaðilinn stendur straum af kostnaði við að skila vörum sem eru gallaðar eða skemmdar af öðrum ástæðum en af völdum neytandans, að því gefnu að neytandinn tilkynni um það innan eðlilegs tíma.

C19 – GREIÐSLA OG INNHEIMTA

Aðferðir við greiðslu og innheimtu ættu að vera þannig að þær valdi neytandanum ekki óþarfa óþægindum, auk þess sem gera þarf ráð fyrir seinkunum sem neytandinn getur ekki haft áhrif á.

Ekki ætti að hafa samband við skuldunauta á ósanngjarnan hátt og ekki má nota innheimtugögn sem hægt er að rugla saman við opinber skjöl.

C20 – ÁBYRGÐ

Markaðs- og/eða söluaðilinn ber ábyrgð á því að farið sé eftir siðareglunum en hann ber endanlega ábyrgð á öllum þáttum sölukynninga, burtséð frá því hvert eðli þeirra eða innihald er. Eins og skilgreint er í 23. grein almennra ákvæða skiptir engu hvert eðli starfseminnar, miðilsins eða tækninnar er, allir aðilar deila ábyrgðinni í réttu hlutfalli við hlutverk hvers og eins í ferlinu og innan marka starfssviðs hvers og eins þeirra.

Allir aðilar máls verða að taka með í reikninginn að aðrir þátttakendur í beinni markaðssetningu og á stafrænu markaðssviði gegna einnig ábyrgðarhlutverki, þar með taldir:

  • umsjónarmenn, símasölufólk eða gagnaeftirlitsaðilar, eða stafrænar auglýsingastofur þeirra, aðrir þjónustuveitendur og undirverktakar þeirra sem leggja sitt af mörkum við verkefni eða skilaboð,
  • persónubundnar auglýsingar, gagnagreinendur og auglýsingatæknifyrirtæki,
  • útgefendur, verkvangar og rásir, eigendur miðla, hlutdeildarnet eða verktakar sem gefa út, miðla eða dreifa tilboðinu eða öðrum skilaboðum,
  • markaðsáhrifavaldar, bloggarar og myndbloggarar,
  • og þeir sem bera ábyrgð á því að vinna algrími fyrir markaðsskilaboð.

SÉRSTÖK ÁKVÆÐI

C21 – ÁKVÆÐI UM SÍMASÖLU

Umfang: Eftirfarandi ákvæði eiga sérstaklega við um beina markaðssetningu með símasölu:

Skilgreining hugtaka sem sérstaklega varða ákvæði um símasölu:

  • hugtakið „símasölufólk“ nær yfir hvern þann einstakling, fyrirtæki eða félag sem veitir markaðs- og/eða söluaðilanum símasöluþjónustu eða fyrir hönd hans.
  • hugtakið „símasala“ felur í sér öll töluð markaðsskilaboð um landlínu, farsíma, IP-síma eða önnur tæki.
  • hugtakið „önnur sjálfvirk úthringiþjónusta“ vísar til hvaða sjálfvirku úthringiaðferða sem er með getunni til að vista eða velja símanúmer til samskipta í tengslum við annan búnað til að miðla skilaboðum í númerið með upptöku eða með talvél.
  • hugtakið „sjálfvirkur úthringibúnaður“ vísar til „hvaða hugbúnaðar, kerfis eða tækis sem er sem sjálfvirkt hringir í áður ákveðinn lista yfir símanúmer“.

C 21.1 — Upplýsingagjöf

Úthringingar

  • þegar hringt er í neytanda ætti símasölufólk að:
  • tilgreina strax nafn þess markaðs- og/eða söluaðila sem það er fulltrúi fyrir og nafn sitt
  • tilgreina tilganginn með símhringingunni á ótvíræðan hátt
  • slíta samtalinu kurteislega þegar það kemur í ljós að viðtakandi er ekki til þess bær að taka við hringingunni, vill það ekki eða ef um barn er að ræða (nema símasölufólkið fái leyfi frá til þess bærum fullorðnum einstaklingi að halda símtalinu áfram)

2. Þegar símasölufólk hringir í neytanda með síma með númerabirti, ætti neytandinn að geta séð númer þess fyrirtækis sem hringir.

Öll símtöl

  • Áður en símtali lýkur ætti símasölufólk að ganga úr skugga um að neytandinn hafi upplýsingar um allt það samkomulag sem gert hefur verið og geri sér bæði grein fyrir eðli þess og þeim skrefum sem tekin verða í framhaldi af símtalinu.

Þegar því er haldið fram að sölusamningur hafi verið gerður, ætti neytandinn að gera sér fulla grein fyrir helstu atriðum samningsins. Þessi atriði eru að lágmarki:

  • helstu einkenni vörunnar
  • hvar vörurnar eru afhentar til langframa eða á yfirstandandi tímabili, að lágmarki á samningstímabilinu
  • verð vörunnar, þar með talinn allur viðbótarkostnaður (t.d. afhendingar- og/eða sendingarkostnaður og allir skattar sem neytandinn gæti þurft að greiða)
  • fyrirkomulag greiðslu, afhendingar eða frammistöðu
  • allur réttur neytandans til þess að hætta við kaupin

Þegar símtalið leiðir ekki til sölu heldur áframhaldandi samskipta við markaðs- og/eða söluaðilann ætti símasölufólkið að tilkynna neytandanum að um frekari samskipti verði að ræða. Ef nota á upplýsingar þær sem neytandinn gefur í einhverjum þeim tilgangi sem ekki er augljós, þ.e. í tilgangi sem ekki hefur þegar verið upplýst um, ætti símasölufólkið að útskýra það fyrir neytandanum í samræmi við almenn ákvæði um persónuvernd (í 19. grein).

C 21.2 – Á eðlilegum tíma sólarhringsins

Hafi móttakandi símtals ekki sérstaklega farið fram á annað ættu úthringingar aðeins að eiga sér stað á þeim tíma sólarhringsins sem almennt er litið á sem sanngjarnan gagnvart viðtakanda.

C 21.3 – Rétturinn til skriflegrar staðfestingar

Þegar símhringing leiðir til pöntunar hefur neytandinn rétt til þess að fá staðfestingu, skriflega eða í varanlegu formi, um nánari skilmála samningsins með góðum fyrirvara og í síðasta lagi þegar varan er afhent eða þegar afhending þjónustu hefst. Í staðfestingunni ættu að koma fram allar þær upplýsingar sem tilgreindar eru í Kafla C12, (Rétti til riftunar) og í C2, (Upplýsingar um markaðs- og/eða söluaðilann), auk allra annarra upplýsinga sem skilgreindar eru í kaflanum eftir því sem við á.

C 21.4 – Vöktun samtala

Vöktun á símtölum sem snúast um símasölu, þar með taldar upptökur af þeim, ætti eingöngu að eiga sér stað með viðeigandi varúðarráðstöfunum í þeim tilgangi að sannreyna innihald símtalsins, staðfesta viðskipti, til þjálfunar og til gæðaeftirlits. Tilkynna ber símasölufólki þegar eftirlit á sér stað og tilkynna ber neytendum það eins snemma í símtalinu og mögulegt er að kannski sé hlustað á það.

Aldrei ætti leika upptöku af samtali fyrir almennan hóp áheyrenda án þess að báðir aðilar símtalsins gefi til þess samþykki sitt.

C 21.5 – Óskráð símanúmer

Ekki ætti að hafa samband við neytendur með óskráð símanúmer í neinum viðskiptalegum tilgangi, nema neytandinn hafi sjálfur gefið markaðs- og/eða söluaðilanum eða viðkomandi umsjónarmanni upp númer sitt í þeim tilgangi.

C 21.6 – Að nýta sér sjálfvirkan úthringibúnað og sjálfvirka úthringiþjónustu í síma

Þegar notast er við sjálfvirkan úthringibúnað og ekkert símasölufólk er þá laust til þess að taka við símtalinu af úthringibúnaðinum, ætti tækið að leggja á og sleppa línunni innan einnar sekúndu að hámarki.

Það er því aðeins hægt að nota aðra sjálfvirka úthringiþjónustu til þess að ná sambandi við neytanda að símasölufólk hafi fyrst kynnt símtalið eða þegar neytandinn hefur ótvírætt lýst sig samþykkan því að taka við þannig símhringingum án afskipta símasölufólks.

Hvorki má nota sjálfvirkan úthringibúnað né aðra sjálfvirka úthringiþjónustu nema hann slíti samtalinu sjálfkrafa þegar neytandinn leggur á. Úthringibúnaður ætti alltaf að slíta sambandi áður en hann tengist öðru númeri.

C22 – ÁKVÆÐI UM PERSÓNUBUNDNAR AUGLÝSINGAR (IBA)

Umfang

Eftirfarandi á við um persónubundnar auglýsingar (IBA) með áherslu á vefskoðun til lengri tíma litið á mörgum vefsetum eða forritum sem eru í eigu mismunandi ótengdra aðila og starfrækt af þeim til þess að byggja upp áhugahópa (hóp notenda sem eiga eitt eða fleira sameiginlegt á grundvelli fyrri og núverandi netvafurs) eða að tengja þannig vafur áhugahópum í þeim tilgangi að koma á framfæri auglýsingum í ljósi áhugamála og forgangsröðunar þess vefnotanda.

Ákvæði þessi eiga við um alla einstaklinga og aðila sem taka þátt í þannig starfsemi á netinu.

Skilgreining hugtaka sem sérstaklega varða ákvæði um persónubundnar auglýsingar:

  • Hugtakið persónubundnar auglýsingar(áður „interest-based advertising“ eða IBA), líka nefndar „auglýsingar sniðnar að hugðarefnum“ („online behavioural advertising“ eða OBA), vísar til þess að safnað er upplýsingum yfir lengri tíma um virkni notenda á ákveðnu tæki á netinu á mörgum ótengdum vefsetrum eða í forritum til að búa til áhugahópa eða tengja saman þannig vafur og hagsmunahópa í þeim tilgangi að koma á framfæri auglýsingum í ljósi áhugamála og forgangsröðunar þess vefnotanda. Hugtakið varðar auglýsingastarfsemi á borðtölvum, í farsímum, myndböndum eða sjónvarpi, á samfélagsmiðlum eða interneti hlutanna (IoT), og felur m.a. í sér ferilrakningu og miðun viðskiptavina þvert á tækjabúnað. Persónubundnar auglýsingar fela ekki í sér megindlega auglýsingamiðlun eða megindlega auglýsingaskráningu og heldur ekki auglýsingar byggðar á samhengi (t.d. auglýsingar sem byggjast á innihaldi vefseturs sem heimsótt er, nýlegri heimsókn neytanda á vefsetur eða leitarbeiðni).
  • Hvað persónubundnar auglýsingar varðar vísar hugtakið „þriðji aðili“ til aðila sem vinnur með persónubundnar auglýsingar (IBA) á ótengdu vefsetri, þjónustu eða appi (þar með talið en þó ekki takmarkað við auglýsendur, auglýsingamarkaði, samstarfsnet um auglýsingar og veitendur tækniþjónustu). Þetta er öfugt við „umsjónarmann vefseturs“ eða „fyrsta aðila“ sem er eigandi, eftirlitsmaður eða umsjónarmaður vefseturs, þar með talin hlutdeildarsetur, þjónusta eða forrit sem vefnotandinn nýtir sér í samskiptunum.
  • Hugtakið „samþykki“ þýðir að einstaklingurinn hefur af fúsum og frjálsum vilja veitt sértæka og upplýsta vísbendingu sem svar við ótvíræðri og auðskilinni tilkynningu um söfnun og notkun gagna á netinu fyrir auglýsingar sniðnar að hugðarefnum.

Að beita tilkynningum og ákvæðum um val

Hver sá sem á aðild að persónubundnum auglýsingum ætti að framfylgja meginreglum um tilkynningar og notendastýringu eins og hér kemur frem að neðan. Brýnt er að söfnun og notkun upplýsinga sé gagnsæ og að notendur og neytendur skilji að þeir geti valið um að deila upplýsingum sínum til notkunar við persónubundnar auglýsingar. Eftirfarandi leiðbeiningar skýra nánar hvernig þessar meginreglur eiga við um persónubundnar auglýsingar.

C22.1 Tilkynningar

Þriðju aðilar og umsjónarmenn vefsetra ættu að birta ótvíræða og auðskilda tilkynningu á vefsetrum sínum um starfshefðir við söfnun og notkun gagna fyrir persónubundnar auglýsingar. Í þannig tilkynningu ætti að vera greinileg lýsing á tegund gagna og tilgangi söfnunarinnar auk upplýsinga um hvernig neytendur geti beitt valrétti sínum gagnvart söfnun og notkun gagna fyrir persónubundnar auglýsingar.

Tilkynninguna ætti að leggja fram með því að nýta eina eða fleiri leiðir til að birta greinilega upplýsingar til netnotenda um starfshefðir við gagnasöfnun og notkun.

C22.2 Notendastýring

Þriðju aðilar ættu að veita netnotendum tækifæri til að velja hvað varðar söfnun og notkun gagna fyrir persónubundnar auglýsingar.

C22.3 Nákvæm staðsetning

Nákvæm staðsetningargögn eru gögn sem lýsa nákvæmri staðsetningu tækis og fengin er með hverri þeirri tækni sem getur staðsett með sæmilegri nákvæmni raunverulega staðsetningu einstaklings eða tækis, svo sem lengdar- og breiddargráður sambærilegar við þær sem fást með GPS eða þríhyrningamælingu tíðnimerkis á grundvelli staðsetningar. Almenn staðsetningargögn á borð við póstnúmer, borg eða nágrenni eru ekki nákvæm staðsetningargögn, sama hvort gögnin eru sótt í IP-tölu eða aðrar heimildir. 

Upplýsingagjöf varðandi friðhelgi ætti að gera grein fyrir þeim leiðum sem vefsetur, öpp og þjónustur (til dæmis API-forritaskil og hugbúnaðarþróunarpakkar (SDK) í boði fyrir þriðju aðila) nálgast, nota og deila nákvæmum landfræðilegum staðsetningargögnum. Fyrirtæki ættu einnig að upplýsa um allar aðferðir sem beitt er til söfnunar upplýsinga um staðsetningu (t.d. Wi-Fi, Basic Service Set Identifier (BSSID)) og tryggja að val neytanda varðandi söfnun staðsetningargagna sé aldrei sniðgengið (t.d. með söfnun Wi-Fi gagna þegar slökkt er á öðrum staðsetningarbúnaði).

Þegar persónubundin auglýsing hefur verið unnin og afhent á grundvelli nákvæmra staðsetningargagna í rauntíma, ætti einungis að varðveita þannig gögn í þeim tilgangi og þann tíma sem tilgreindur er þegar gögnum er safnað.

C22.4 Rakning þvert á tæki

Upplýsingagjöf og val sem boðið er neytendum og fyrstu aðila fyrirtækjum, eigendum vefsetra og appa þar sem rakning þvert á tæki á sér stað, ættu að lýsa þeim mörgu rekilaðferðum sem notaðar eru, þar með taldar öll réttindavarin tækni sem nýtir sér margþættar tæknileiðir (t.d. vefkökur, fingraför og vefkökusamræming).

Upplýsingar skulu einnig gefnar um rakningu þvert á mörg tæki.

Ekki má telja notendum trú um að rakning sé umfangsminni en hún er eða að öll rakning þvert á öll öpp, netvafra og tæki notanda hafi verið stöðvuð, hafi það ekki verið gert. Fyrirtæki ættu að ganga úr skugga um að þegar neytandi velur á einu tæki að hafna rakningu til að koma í veg fyrir persónubundnar auglýsingar á því tæki séu gögn frá tækinu ekki notuð til að gefa upplýsingar um persónubundnar auglýsingar á öðrum tækjum með rakningu þvert á tæki. Nái þeir valkostir sem í boði eru ekki til allra aðferða sem fyrirtæki nota til að leita uppi neytendur ætti það að koma fram á ótvíræðan og áberandi hátt.

C22.5 Gagnaöryggi

Stöðugt skal við haldið viðeigandi eðlisrænum, rafrænum og stjórnunarlegum öryggisráðstöfunum til að vernda gögn sem safnað er og notuð til persónubundinna auglýsinga.

Gögn sem safnað er og notuð til persónubundinna auglýsinga skulu aðeins geymd eins lengi og nauðsynlegt er samkvæmt þeim viðskiptalega tilgangi sem tilgreindur eru í samþykkinu.

C22.6 Börn

Ekki ætti að búa til geira sérhannaða til að nálgast börn með persónubundnum auglýsingum án viðeigandi samþykkis foreldra/forráðamanna.

C22.7 Kaflaskiptingu viðkvæmra gagna

Almennt séð ættu fyrirtæki ekki að búa til eða nota geira til persónubundinna auglýsinga á grundvelli viðkvæmra gagna. Þeir sem ætla sér að búa til eða nota þannig geira til persónubundinna auglýsinga og reiða sig á viðkvæmar upplýsingar eins og þær eru skilgreindar lögum samkvæmt ættu að afla sér samþykkis vefnotandans áður en er þær upplýsingar eru teknar í notkun til persónubundinna auglýsinga.

KAFLI D: FULLYRÐINGAR UM UMHVERFISMÁL Í MARKAÐSSKILBOÐUM

Þennan kafla ber að lesa í tengslum við Almenn ákvæði og skilgreiningar um auglýsingar og markaðsskilaboð og Innganginn varðandi hvernig túlka skal og beita lögum, valdsvið þeirra og samhengi. Frekari leiðbeiningar eru í boði fyrir þá markaðs- og/eða söluaðila sem áhuga hafa á umhverfisfullyrðingum í rammaverki ICC um umhverfislega ábyrg markaðsskilaboð.

Umfang kafla D

Þessi kafli á við um öll markaðsskilaboð sem innihalda fullyrðingar um umhverfismál, þ.e. hverja þá fullyrðingu sem vísar beint eða óbeint til umhverfis- eða vistkerfisþátta í tengslum við framleiðslu, umbúðir, dreifingu notkun/neyslu eða förgun vöru. Hægt er að birta fullyrðingar um umhverfismál í hvaða miðli sem er, þar með talið í vörumerkingum, á fylgiblöðum, í kynningar- eða söluefni, upplýsingum um viðkomandi vöru og í gagnvirkum stafrænum miðlum. Í kaflanum er fjallað um allt þetta.

Kaflinn byggist á leiðbeiningum, bæði í landi og á alþjóðavísu, og felur í sér en takmarkast ekki við ákvæði alþjóðastaðalsins ISO 14021 um „Eigin yfirlýsingar um umhverfismál“ sem vísa til markaðsskilaboða, fremur en að innihalda tæknilegar lýsingar.

Hugtök sem sérstaklega varða fullyrðingar um umhverfismál

Eftirfarandi skilgreiningar eiga sérstaklega við um þennan kafla og þær ber að lesa í samhengi við almennar skilgreiningar eins og þær eru settar fram í almennum ákvæðum:

  • hugtakið „umhverfisþáttur“ á við atriði í starfsemi eða vöru félags sem getur haft víxlverkunaráhrif á umhverfið.
  • hugtakið „umhverfisfullyrðing“ þýðir hvaða fullyrðingu sem er, tákn eða myndræna framsetningu sem gefur til kynna umhverfisþátt vöru, hluta eða umbúða.
  • hugtakið „umhverfisáhrif“ þýðir allar breytingar á umhverfi, bæði jákvæðar og neikvæðar, sem spretta að öllu leyti eða að hluta til af starfsemi eða vöru félags.
  • hugtakið „vistferill (lífsferill)“ táknar samfelld og samtengd þrep í framleiðslukerfi, allt frá öflun hráefnis eða vinnslu náttúrulegra auðlinda til lokaförgunar.
  • hugtakið „vara (afurð)“ táknar hvaða vöru eða þjónustu sem er. „Vara“ felur að jafnaði í sér þær umbúðir, ílát o.s.frv. sem afurðirnar eru afhentar í. Þegar fjallað er um umhverfisáhrif er þó oft rétt að vísa sérstaklega til umbúða en það hugtak þýðir þá allt það efni sem notað er til þess að hlífa vöru eða geyma hana í á meðan á flutningi, geymslu, markaðssetningu eða notkun stendur.
  • hugtakið „fyrirvari“ þýðir yfirlýsingu til útskýringa sem lýsir takmörkunum yfirlýsingarinnar nákvæmlega og með sannleikann að leiðarljósi.
  • hugtakið „sorp“ vísar til alls þess sem framleiðandi eða eigandi hefur frekari enga þörf fyrir og sem er fargað eða skilað aftur til umhverfisins.

Til eru margar mismunandi sértækar umhverfisyfirlýsingar og notkun þeirra og mikilvægi getur verið breytilegt. Þessar almennu meginreglur eiga hins vegar við um allar umhverfisyfirlýsingar. Leiðbeiningar um notkun valinna umhverfisyfirlýsinga, sem oft birtast í markaðsskilaboðum, má finna í rammaverki ICC um umhverfislega ábyrg markaðsskilaboð.

D1 – HEIÐARLEG OG SÖNN KYNNING

Markaðsskilaboð eiga að vera þannig upp sett að þau misnoti sér ekki umhyggju neytandans fyrir umhverfinu eða nýti sér mögulegan skort á þekkingu á umhverfismálum.

Markaðskilaboð ættu ekki að innihalda neinar fullyrðingar eða sjónræna uppsetningu sem líkur eru á að geti villt um fyrir neytendum á neinn hátt hvað varðar umhverfisþætti eða kosti við vöru, eða um þær aðgerðir sem markaðs- og/eða söluaðilinn grípur til með hagsmuni umhverfisins að leiðarljósi. Dæmi um þetta eru ýkjur um umhverfislega eiginleika, til dæmis að leggja mikla áherslu á smávegis úrbót sem miklar framfarir eða að nota tölfræðilegar upplýsingar á misvísandi hátt („við höfum tvöfaldað endurunnið innihald í vöru okkar“ þegar það var aðeins lágt hundraðshlutfall í upphafi). Auglýsingar frá fyrirtækjum sem vísa til ákveðinna vörutegunda eða starfsemi ættu ekki að gefa í skyn að þær nái til allrar starfsemi fyrirtækis, samstæðu eða iðngreinar nema hægt sé að sýna fram á það.

Umhverfisfullyrðing ætti að tengjast þeirri vöru sem verið er að kynna og einungis að varða þætti sem þegar eru fyrir hendi eða munu líklega koma til sögunnar á líftíma vörunnar, þar með talin hefðbundin eða venjuleg förgun eða röng förgun sem ætla má að geti átt sér stað. Það ætti að koma greinilega fram til hvers er vísað í fullyrðingunni, t.d. vörunnar eða ákveðins efnis í vörunni, eða umbúðum hennar eða ákveðins efnis í umbúðum hennar. Ekki ætti að kynna þátt sem nýjan, hafi hann áður verið til staðar en þá ekki komið fram.

Umhverfisupplýsingar ættu að vera dagréttar og þær ber að endurmeta með tilliti til viðeigandi þróunar þar sem það á við.

Það ætti því aðeins að setja fram óljósar eða ekki ótvíræðar fullyrðingar um umhverfiskosti sem gætu táknað margt í hugum neytanda, að þær gildi án fyrirvara í öllum fyrirsjáanlegum kringumstæðum sem eðlilegt er að gera ráð fyrir. Sé ekki svo, ætti annað hvort að setja fyrirvara við almennar umhverfisfullyrðingar eða sniðganga þær. Einkum ber að forðast að nota fullyrðingar á borð við „umhverfisvænt“, „vistvænt“, „grænt“, „sjálfbært“, „kolefnisvænt“ og allar aðrar fullyrðingar sem gefa til kynna að vara eða starfsemi hafi engin áhrif eða eingöngu jákvæð áhrif á umhverfið, nema fyrir liggi mjög sannfærandi sannanir um það. Ekki ætti að leggja fram neinar fullyrðingar um að sjálfbærni eða staðfestingar þess efnis að sjálfbærni sé til staðar séu endanlegar ef almennt viðurkenndar aðferðir til þeirra mælinga eru ekki fyrir hendi.

Nánari fyrirvarar eiga að vera skýrir, áberandi og auðskiljanlegir og þeir skulu birtir sem næst þeirri fullyrðingu sem þeir eiga við um svo augljóst sé við lestur að fyrirvarinn eigi við fullyrðinguna. Upp geta komið þær kringumstæður að viðeigandi sé að nota vísi sem vísar neytandanum á vefsíðu þar sem hægt er að nálgast viðbótarupplýsingar. Þessi tækni hentar einkum fyrir upplýsingar um förgun að notkun lokinni. Það er til dæmis ekki mögulegt að birta ýtarlegan lista á umbúðum vöru yfir svæði þar sem tekið er við henni til endurnýtingar. Fullyrðing á borð við „Endurnýtanleg víða, smelltu á [veffang] til að kanna móttöku nálægt þér“ veitir neytendum ráð um hvernig finna skuli upplýsingar um samfélög þar sem tekið er við ákveðnu efni eða vöru til endurnýtingar.

D2 – VÍSINDALEGAR RANNSÓKNIR

Eingöngu ætti að vísa til tæknilegrar framsetningar og vísindalegrar niðurstöðu um umhverfisáhrif í markaðsskilaboðum þegar upplýsingarnar eru studdar áreiðanlegum vísindalegum sönnunargögnum.

Notast má við fagmál umhverfisfræða eða vísindalegt tæknimál að því gefnu að það komi málinu við og sé notað þannig að það sé auðskilið þeim sem skilaboðunum er beint til. (Sjá einnig 9. grein siðareglnanna – Notkun tækni- og vísindagagna, hugtaka og íðorða).

Því aðeins ætti að vísa til umhverfisfullyrðinga sem varða heilbrigði, öryggi eða aðra kosti að upplýsingarnar séu studdar áreiðanlegum vísindalegum sönnunargögnum

D3 – YFIRBURÐIR OG AÐRAR SAMANBURÐARFULLYRÐINGAR

Allar samanburðarfullyrðingar þurfa að vera sértækar og grundvöllur samanburðar ætti að liggja ljós fyrir. Ekki ætti að fullyrða neitt um umhverfislega yfirburði yfir samkeppnisaðila nema hægt sé að sýna fram á umtalsvert forskot. Þegar vörur eru bornar saman ættu þær að uppfylla sömu þarfir og vera ætlaðar til sömu nota.

Orða ber samanburðarfullyrðingar þannig að ljóst sé hvort forskotið er algilt eða háð ákveðnum forsendum, jafnvel þótt samanburðurinn sé við fyrra ferli eða vöru markaðs- og/eða sölumannsins sjálfs eða keppinautar hans.

Kynna bera sérstaklega úrbætur sem varða vöru og umbúðir hennar en ekki í einu lagi, í samræmi við þá meginreglu að yfirlýsingar skuli vera sértækar og greinilega varða viðkomandi vöru, innihaldsefni vörunnar eða umbúðir vörunnar og innihaldsefni þeirra.

D4 – VISTFERILL VÖRU, ÍHLUTA OG ÞÁTTA

Ekki ætti að setja fram umhverfisfullyrðingar þannig að gefið sé til kynna að þær varði fleiri þrep í vistferli vöru eða fleiri eiginleika hennar en sönnunargögn réttlæta. Alltaf ætti að liggja ljóst fyrir til hvaða þreps eða eiginleika fullyrðing vísar. Fullyrðingar um vistferil ætti að rökstyðja með vistferilsgreiningu.

Þegar fullyrðing vísar til þess að færri íhlutir eða þættir hafi umhverfisáhrif, ætti að koma skýrt fram úr hverju hefur verið dregið. Þannig fullyrðingar eru því aðeins réttlætanlegar að þær vísi til annarra kosta við vinnslu, íhluti eða þætti sem leiða til umtalsverðra úrbóta hvað umhverfismál varðar.

Umhverfisfullyrðingar ættu ekki að byggjast á því að ekki sé til staðar íhlutur, innihaldsefni, einkenni eða áhrif sem aldrei hefur tengst viðkomandi vöruflokki nema tryggt sé að segja megi að varan eða vöruflokkurinn hafi aldrei tengst viðkomandi íhlut, innihaldsefni, einkennum eða áhrifum. Hins vegar ætti ekki að kynna almenn einkenni eða innihaldsefni, sem flestar eða allar vörur í sama vöruflokki eiga sameiginlegar, sem einstakt og athyglisvert einkenni á þeirri vöru sem verið er að kynna.

Því aðeins ætti að fullyrða að vara innihaldi ekki ákveðið innihaldsefni eða íhlut, t.d. að varan sé „X-laus“ („án X“) að magn þess sem tilgreint er fari ekki fram úr því magni sem er viðurkennt sem óverulegt magn samkvæmt íslenskum lögum. Fullyrðingar um að vara, umbúðir eða innihaldsefni sé „án“ kemísks efnis eða annars efnis eru oft til þess ætlaðar að tjá eða gefa til kynna heilbrigðisfullyrðingu til viðbótar umhverfisyfirlýsingunni. Sú röksemdafærsla sem nauðsynleg er til að geta tjáð eða gefið til kynna heilbrigðis- eða öryggisfullyrðingu gæti verið frábrugðin þeirri röksemdafærslu sem þarf til að styðja yfirlýsingu um umhverfiskosti. Auglýsandinn ætti að vera viss um að ráða yfir áreiðanlegum vísindalegum sönnunum fyrir því að geta tjáð eða gefið til kynna heilbrigðis- og öryggisfullyrðingu samkvæmt öðrum viðeigandi ákvæðum siðareglnanna.

D5 – MERKI OG TÁKN

Það má því aðeins nota umhverfismerki eða tákn í markaðsskilaboðum að uppruni þessara merkja og tákna sé greinilega gefinn til kynna og að engar líkur séu á því að fólk geti ruglast á merkingu þeirra. Ekki ætti að nota þannig merki og tákn að þau gefi ranglega til kynna opinbera viðurkenningu eða vottun þriðja aðila.

D6 – MEÐFERÐ SORPS

Hægt er að leggja fram umhverfisfullyrðingar sem vísa til meðferðar sorps, að því gefnu að um sé að ræða almennt viðurkennda aðferð við flokkun, sorphirðu, úrvinnslu eða förgun eða að hún standi til boða viðunandi hlutfalli neytenda á viðkomandi svæði (eða aðra staðla eins og þeir eru skilgreindir á hverjum stað fyrir sig). Sé svo ekki ætti að lýsa aðgenginu nákvæmlega.

D7 – ÁBYRGÐ

Þær reglur um ábyrgð sem fram koma í almennum ákvæðum eiga við um þennan kafla (sjá 23. gr.).

Úrskurðir siðanefndar

Úrskurður september 2018

Úrskurður febrúar 2016

Úrskurður september 2012